
Minningarsjóður Guðfreðs Hjörvars Jóhannessonar, í varðveislu Söngskólans í Reykjavík, veitti á dögunum sjö nemendum skólans styrki upp á 300.000 kr. hver. Segir í tilkynningu að alls hafi 2,1 milljón verið úthlutað úr sjóðnum og á þeim sjö árum sem liðin séu frá stofnun sjóðsins hafi 25 nemendur hlotið styrki úr honum. Styrkþegar að þessu sinni eru þau Aþena Helgadóttir, Bjarni Freyr Gunnarsson, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Ellert Blær Guðjónsson, Jón Marteinn Gunnlaugsson, Laufey Ósk Jóns og Olga María Rúnarsdóttir.
„Nemendurnir efnilegu, sem hlutu styrkina, komu fram á stuttum tónleikum af þessu tilefni í sal Söngskólans í Reykjavík við Laufásveg. Hrönn Þráinsdóttir, kennari við skólann, lék með á píanó. Stjórn sjóðsins afhenti styrkina í lok tónleikanna og minntist Guðfreðs.“ Þá er markmið sjóðsins að styrkja unga og efnilega nemendur við Söngskólann í Reykjavík og skulu þeir valdir af stjórn sjóðsins.