
Dr. jur. Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor og fyrrverandi dómari, mun fjalla um fornar lögbækur og gildandi lög í hádegisfyrirlestri í Eddu á þriðjudaginn, þann 25. febrúar, kl. 12. Er erindið liður í fyrirlestraröð sem tengd er handritasýningunni Heimur í orðum en í tilkynningu segir að á sýningunni séu meðal handrita fornar lögbækur, t.a.m. lögbók úr Skálholti og þrjú lögbókarhandrit sem séu ólík að stærð og gerð.
Ber fyrirlesturinn yfirskriftina „Fornar lögbækur og dómar“ en þar mun hann fjalla um nokkra íslenska dóma „[…] sem nýlega má telja, þar sem meðal annars er að finna tilvísanir í fornar lögbækur“.
Dr. jur. Davíð Þór Björgvinsson er fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en er nú prófessor og deildarforseti við lagadeild Háskólans á Akureyri.