— Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson

„Við erum bara búin að taka tvö köst og það er leiðindaveður hérna,“ sagði Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða NK 120 frá Neskaupstað, í samtali við Morgunblaðið undir kvöld í gær þar sem hann var staddur með ellefu manna áhöfn við loðnuveiðar rétt suður af Malarrifi á Snæfellsnesi. „Við erum bara tveir hérna á miðunum, ég og Jón Kjartansson, hann er að draga nótina hérna við hliðina á mér,“ lét skipstjórinn uppi, en þegar Morgunblaðið heyrði í honum á ný síðar í gærkvöldi var hann á leið í land með 1.200 tonn. Á myndinni má hins vegar sjá skipverja á Heimaey VE 1 taka loðnunótina upp í skip sitt.