
Valur tryggði sér í gær sæti í undanúrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik með jafntefli við Slavia Prag frá Tékklandi, 22:22, í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum á Hlíðarenda. Valur vann fyrri leikinn, einnig á Hlíðarenda, 28:21 á laugardag og einvígið samanlagt 50:43.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val í leiknum í gær og á laugardag með átta mörk. Thea Imani Sturludóttir bætti við sjö mörkum bæði í gær og á laugardag og Hafdís Renötudóttir fór hamförum í markinu og varði 20 skot í gær og 11 á laugardag.
Haukar féllu hins vegar úr leik þrátt fyrir fimm marka sigur, 27:22, á tékkneska liðinu Hazena Kynzvart í síðari leik liðanna á Ásvöllum á laugardag. Fyrri leikurinn ytra tapaðist með 11 mörkum, 24:35, og vann Hazena því einvígið samanlagt 57:51.
Sara Sif Helgadóttir var frábær í marki Hauka en hún varði 17 skot og var með 49 prósent markvörslu.