
Ósk Magnúsdóttir fæddist á Sæbóli á Seltjarnarnesi 31. janúar 1949 og bjó þar alla tíð. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn
12. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundsson vélstjóri (1907-2001) og Björg Sigurjónsdóttir, húsmóðir og hannyrðakona (1916-1999). Bræður hennar voru Guðmundur, kennari og leiðsögumaður (1936-2021), Sigurjón (1941-1993), háloftaathugunarmaður og Friðjón (1945-2024) veðurstofutölvari.
Ósk giftist Gunnlaugi Ástgeirssyni menntaskólakennara 6. september 1974. Börn þeirra eru: Kári, f. 1975, kvikmyndaleikstjóri og leiðsögumaður, maki hans er Árný Björg Bergsdóttir framkvæmdastjóri, f. 1974, og sonur þeirra er Baldur, f. 2014. Freyja, f. 1979, tónlistarkona og skólameistari MÍT, maki hennar er Egill Arnarson, f. 1973, heimspekingur og ritstjóri, börn þeirra eru Iðunn, f. 2018, og Gunnlaugur Örn, f. 2024.
Ósk ólst upp á Seltjarnarnesi og gekk í Mýrarhúsaskóla þaðan sem hún lauk gagnfræðaprófi 1966. Þá fór hún í Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi 1970. Hún var kennari við Mýrarhúsaskóla 1972 og Hagaskóla 1976-1978. Á námsárunum vann Ósk í fyrirtækjum Þorvaldar í Síld og fisk og í móttökunni á Hótel Holti 1970-1973 og svo aftur 1978-1988, þar af móttökustjóri frá 1983. Einnig vann hún sem bókavörður á Borgarbókasafninu 1973-1975. Frá 1988 til 2011 vann hún í breska sendiráðinu og sinnti þar ýmsum verkefnum.
Ósk starfaði í barnaverndarnefnd Seltjarnarness 1978-1982 og sat þar einnig í félagsmálaráði frá 1982-1990.
Ósk var annáluð fyrir sköpunarkraft sinn og listfengi. Hún ólst upp við saumamaskínur mömmu sinnar og ömmu. Lærði snemma að hanna, sníða og sauma kjóla sem prýddu ekki aðeins dansgólf yfir spariskóm vinkvenna hennar og frækna, heldur fylgdu svo Freyju glæsilega um tónleikasali heimsins. Hún lærði myndvefnað hjá Hildi Hákonardóttur og eru til nokkur merkileg verk sem Ósk skapaði í gegnum tíðina.
Ósk varð fyrir alvarlegu heilsufarsáfalli í júní 2018 og dvaldi eftir það á sjúkrastofnunum, síðustu sex árin á hjúkrunarheimilinu á Seltjörn á Seltjarnarnesi.
Útför Óskar verður frá Seltjarnarneskirkju í dag, 24. febrúar 2025, kl. 13.
Hún ólst upp undir saumavélunum hjá mömmu sinni og ömmu sem voru miklar hagleikskonur og lærði fornt handverk með því að fylgjast með þeim, en mamma hafði ótrúlegt sjónminni og rýmisgreind svo hún gat sniðið hvaða flíkur sem henni datt í hug fríhendis. Það var alltaf sagt að hún hefði erft þennan hæfileika frá Guðrúnu ömmu sinni sem lærði klæðskeraiðn í upphafi 20. aldar og saumaði jafnt ballkjóla fyrir glæsipíur bæjarins og ófáa þjóðbúninga sem margir hverjir eru gersemar sem eru ennþá í notkun. Mamma fékk fyrsta upphlutinn sinn þriggja ára og hann var svo glæsilegur að hún sat fyrir með leikkonunni Þóru Borg sem litla fjallkonan við Alþingishúsið árið 1952.
Ósk bjó alla tíð í húsinu á bakkanum við sjóinn, hún flutti aldrei nema milli hæða. Hún og pabbi hófu sinn búskap í kjallaranum og bjuggu alla tíð í húsinu. Það var alltaf sagt að pabbi hefði flutt inn með 500 bækur og sjö nærbuxur. Bókunum fjölgaði jafnt og þétt þangað til hver einast þumlungur af veggjum í litlu kjallaraíbúðinni var þakinn bókum. Fjölskyldan stækkaði líka.
Mamma elskaði ketti og köngulær, köngulærnar sem spunnu sér vefi í skúmaskotum á útveggjum fengu nöfn úr Íslendingasögum: Hallgerður, Bergþóra og Auður djúpúðga. Hún bauð þeim iðulega góðan daginn. Ósk átti alltaf svartar læður, lengst af Tjöru og Tinnu sem voru miklir mektarkettir og gríðarlega frjósamar. Það var því ekki óalgengt að hrúgur af litlum kettlingum veltust um gólfið heima. Eitt sinn eignuðust þær báðar kettlinga í sömu vikunni. Ég verð að segja að tímabilið þegar bjuggu 17 kettir og 5 manneskjur í kjallaranum er eftirminnilegt. Við vorum fimm því að Björg, eftirlætisfrænka mín, hafði líka flutt inn en mamma gerði svefnstað fyrir hana í fatahenginu undir stiganum þar sem hún bjó í tvö ár.
Það var gestkvæmt á heimilinu og alltaf líf og fjör og við vöndumst því ung að ræða pólitík, bókmenntir, listir og menningu af mikilli innlifun. Allir höfðu sína skoðun og okkur var kennt að færa rök fyrir máli okkar. Við áttum lesa okkur til, móta okkur sjálfstæðar skoðanir og það var í lagi að takast á. Okkur var kennt að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, trúarbrögðum, menningu og stjórnmálaskoðunum. Nema því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, þá var okkur hótað að við yrðum gerð arflaus.
Ég hef stundum í seinni tíð hugsað um það að það hljóti stundum að hafa verið svolítið hávært á heimilinu, í ljósi þess að við systkinin spiluðum á klarínett og básúnu, pabbi hamraði á gamla háværa rafmagnsritvél flest kvöld og mamma saumaði á gömlu appelsínugulu Toyota-saumavélina, sem voru heilmikil læti í. En þegar ég hugsa um það þá finnst mér ekkert meira róandi en saumavélamal og hljóðið í gamalli rafmagnsritvél sem hamrað er á af innblæstri, helst samtímis.
Ósk var afskaplega barngóð og hafði mikinn áhuga á ungu fólki. Börn leituðu til hennar og urðu vinir hennar og börn vina og nágranna voru alltaf velkomin á Sæbóli. Þar langar mig sérstaklega að minnast á Margréti Rán frá Ökrum sem heimsótti Ósk, vinkonu sína oft í viku þegar hún var lítil. Þær spjölluðu, lásu og spiluðu endalaust og Ósk þótti undurvænt um hana eins og sitt eigið barnabarn. Foreldrar hennar, Sigurþóra og Rúnar, urðu kærir vinir og það myndaðist fallegt og gott samfélag vina og nágranna á bakkanum við Nesveginn.
Allt fram á síðasta dag ljómaði hún þegar barnabörnin komu að heimsækja hana á Seltjörn, jafnvel þegar hún var langt leidd af veikindunum og sjúkdómurinn hafði dregið hulu yfir huga hennar og minni. Þegar hún fékk litla Gunnlaug Örn í fangið hló hún og ljómaði og hann hjalaði við hana stundarlangt, eins og þau ættu sitt eigið sérstaka tungumál.
Ósk og Gunnlaugur opnuðu heimili sitt fyrir vinum mínum og Kára bróður upp á gátt og urðu miklir vinir þeirra. Þau voru alltaf velkomin á Sæbóli og húsið varð þeirra samkomustaður á menntaskólaárum og stundum annað heimili. Sum þeirra bjuggu í lengri eða skemmri tíma á Sæbóli og sá vinskapur entist út lífið.
Ósk var alla tíð mjög listræn og skapandi. Hennar listfengi birtist fyrst og fremst í handverkinu en hún hannaði og saumaði fallega kjóla, óf og saumaði út myndverk og heklaði allt sem henni datt í hug.
Af miklum áhuga fylgdist hún með öllu því unga listafólki sem vandi komur sínar á heimilið og studdi það með ráðum og dáð, hvort sem það var í því að sauma konsertkjóla, búninga fyrir bíómyndir, leikhús eða óperusýningar, aðstoða við myndlistarsýningar eða lána muni eða jafnvel heimilið fyrir leikmyndir. Þau leituðu gjarnan til hennar og hún tók vel í allar hugmyndir, hvort sem það var að sauma geimfarabúning, hafmeyjusporð eða brúðarkjól. Einu sinni lét hún jafnvel plata sig í að leika í listrænni kvikmynd fyrir Þorbjörgu Jónsdóttur listakonu, stórvinkonu sína, æskuvinkonu Freyju og heimagang á Sæbóli.
Ósk elskaði ferðalög og nýtti hvert tækifæri sem hún gat til að uppgötva nýja staði. Á yngri árum ferðaðist hún mikið um landið með Ferðafélaginu og seinna með fjölskyldunni. Hún naut þess einnig að ferðast um framandi staði og kynnast listum og menningu annarra þjóða. Hún þræddi þá gjarnan listasöfn, leitaði uppi handverk og þjóðlagatónlist og eignaðist vini á ólíkum stöðum.
Þegar hún var ung vann hún þrjú sumur á Englandi og Skotlandi og rifjaði oft upp skemmtilegar sögur frá þessum tíma. Þetta var á háapunkti hippatímans og hún hafði frá mörgum ævintýrum að segja. Ósk tók virkan þátt í þeim samfélagsbreytingum sem urðu á þessum árum og barðist fyrir frelsi, jafnrétti og betra samfélagi. Hún tók síðar þátt í rauðsokkahreyfingunni og í bæjarmálapólitíkinni á Seltjarnarnesi. Hún var róttæk, með sterka réttlætiskennd og mikill friðarsinni.
Eftir situr minningin, daufur vindlareykur í loftinu, skrjáf í silki og friðsælt mal í saumavél. Í hennar anda höldum við áfram að heiðra lífsgleðina, sköpunarkraftinn og mennskuna.
Freyja Gunnlaugsdóttir