Rússar hafa skilið eftir sig slóð blóðsúthellinga og eyðileggingar í Úkraínu

Þrjú ár voru í gær liðin frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu. Rússar héldu að þeir ættu létt verk fyrir höndum. Hermönnum þeirra hafði verið talin trú um að þeir væru að fara að frelsa íbúa landsins, sem myndu fagna komu þeirra. Rússar mættu hins vegar harðri andspyrnu og fengu að finna fyrir því að þeir væru ekki velkomnir.

Þótt sókn Rússa að Kænugarði mistækist hrapallega hefur Úkraínuher ekki tekist að hrekja rússneska herinn brott frá héruðunum í austur- og suðurhluta landsins og nú eru um 20% landsins á valdi Rússa.

Rússneski herinn hefur skilið eftir sig slóð blóðsúthellinga og eyðileggingar. Aðkoman að þorpum og bæjum sem Rússar lögðu undir sig og misstu aftur var hryllileg. Rússnesku hermennirnir höfðu pyntað og nauðgað og tekið fólk af lífi að tilefnislausu. Fjölmörg dæmi eru um að stríðsfangar hafi einfaldlega verið teknir af lífi.

...