Tjarnarbíó Kafteinn Frábær ★★★★· Eftir Alistair McDowall. Íslensk þýðing: Ævar Þór Benediktsson. Leikstjórn: Hilmir Jensson. Tónlist: Svavar Knútur. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Leikari: Ævar Þór Benediktsson. Frumsýnt í Tjarnarbíói miðvikudaginn 12. febrúar 2025.

Ævar Þór „Af þeim fjölmörgu einleikjum sem leikhúsgestum hefur verið boðið upp á undanfarna mánuði er Kafteinn Frábær trúlega sá sem reynir mest á formið. Þeim mun gleðilegra er hvað vel tekst til,“ segir í rýni.
— Ljósmynd/Björgvin Sigurðarson
Leiklist
Þorgeir
Tryggvason
Allar ofurhetjur eiga veikan punkt. Akkilesarhæl eða kryptonít. Fyrir Magnús, sem gegnir líka nafninu Kafteinn Frábær, er það raunveruleikinn. Allar eiga þær líka upprunasögu. Kóngulóarmaðurinn var bitinn af geislavirkri áttfætlu og Akkilesi dýft í ána Styx. Kafteinn Frábær er afrakstur ímyndunaraflsins. Kvöldsaga fyrir dóttur Magnúsar sem tók yfir líf hans þegar hennar fjaraði út. Þessi fallegi og formlega djarfi einleikur er bæði að formi og innihaldi óður til sköpunarkraftsins og um leið viðurkenning á hvað hann má sín lítils gegn heiminum.
Alistair McDowall teflir djarft í þessum texta. Einn leikari miðlar sögunni. Segir hana ekki, eins og oftast er gert í einleikjum, heldur sýnir hana, óbundinn af tímaröð. Í
...