
Ísland mætir Frakklandi í öðrum leik sínum í A-deild Þjóðadeildar kvenna í knattspyrnu í frönsku borginni Le Mans í kvöld en flautað verður til leiks klukkan 20.10.
Íslenska liðið kom til Le Mans frá Zürich í Sviss þar sem það gerði markalaust jafntefli í fyrsta leiknum á föstudaginn. Frakkar unnu heimasigur á Noregi, 1:0, sama kvöld en þessar fjórar þjóðir skipa riðilinn.
Frakkland er í 11. sæti á heimslista FIFA, þremur sætum fyrir ofan Ísland, en hefur oftast verið ofar en það.
Ísland hefur tapað níu sinnum í 12 viðureignum við Frakka hingað til. Eini sigurinn kom á Laugardalsvellinum sumarið 2007 þegar Ísland vann leik liðanna, 1:0, í undankeppni EM. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sigurmarkið.
Síðasti leikur liðanna endaði með jafntefli, 1:1, í lokakeppni EM á Englandi sumarið 2022 þar sem Dagný Brynjarsdóttir jafnaði metin í uppbótartíma.