
Sigurreifir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir glaðir í bragði.
— Ljósmynd/Mummi Lú fyrir RÚV
Bræðurnir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir báru sigur úr býtum á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2025 sem fram fór um helgina. Þeir mynda saman hljómsveitina VÆB og kepptu með lagið „Róa“. Lagið sömdu þeir í samvinnu við Gunnar Björn Gunnarsson og Inga Þór Garðarsson.
Hljómsveitin VÆB varð bæði stigahæst í atkvæðagreiðslu alþjóðlegrar dómnefndar keppninnar og símakosningu almennings, en sveitin hlaut samtals 167 stig. Bræðurnir munu því keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision sem fer fram í Basel í Sviss dagana 13., 15. og 17. maí. Samkvæmt vef keppninnar keppir Ísland á fyrra undanúrslitakvöldinu, 13. maí.