
Bessí Jóhannsdóttir, Jón Magnússon og Ragnar Árnason
Morgunblaðið hefur að undanförnu (5. feb. og 8. feb. sl.) birt fréttaglefsur af fjárhagsvanda Leigufélags aldraðra. Stofnandi félagsins, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), hefur ekki séð ástæðu til að upplýsa félagsmenn um stöðu leigufélagsins og ástæðuna fyrir því að svona illa er komið. Þvert á móti sjáum við sem höfum verið í minnihluta í stjórn FEB ekki betur en meirihlutinn rói að því öllum árum að halda sem mestu af staðreyndum þessa máls leyndum fyrir félagsmönnum og freista þess að draga upp sem skásta mynd af því sem gerst hefur. Við sjáum okkur því tilneydd til að gera opinberlega grein fyrir málinu eins og það horfir við okkur ef vera kynni að það gæti orðið til þess að forða öðrum samtökum aldraðra frá því að falla í sömu gryfju.