
Áfrýjunardómstóll í Argentínu hefur fellt niður ákæru fyrir manndráp af gáleysi gagnvart þremur einstaklingum sem sakaðir voru um að hafa orðið valdir að dauða Liams Payne, söngvara hljómsveitarinnar One Direction. Hann lést eftir að hann féll fram af svölum á hótelbergi sínu í Búenos Aíres. Þessu greinir AFP frá. Í frétt BBC kemur fram að um hafi verið að ræða vin Paynes og tvo starfsmenn hótelsins.
Tveir menn eru enn í haldi vegna andláts Paynes. Þeir eru sakaðir um að hafa selt honum kókaín skömmu áður en hann lést og gætu átt yfir höfði sér málsókn vegna þessa. Í frétt AFP er haft eftir saksóknara að Payne hafi neytt kókaíns, áfengis og lyfseðilsskylds þunglyndislyfs áður en hann féll fram af svölunum í október á síðasta ári. Payne hafði tjáð sig opinberlega um glímu sína við fíkniefni og frægðina.