Jóna Guðrún Gunnarsdóttir fæddist á Seltjarnarnesi þann 21. ágúst 1946. Hún lést á Sóltúni heilsusetri þann 5. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Magnús Gunnar Magnússon f. 11.1. 1920, d. 1.8. 1986 og Kristín Guðlaug Bárðardóttir f. 21.12. 1921, d. 16.2. 2010.

Systkini Jónu eru Símon Vilberg f. 9.2. 1944, maki Eygló Andrésdóttir, Jóhann Magnús f. 28.4. 1949, d. 9.5. 1997, Matthías, f. 8.7. 1950, d. 19.8. 2024, maki Katrín Eiríksdóttir, og Dagný Dóra, f. 27.10. 1962, maki Halldór Diego Guðbergsson.

Eftirlifandi eiginmaður Jónu Guðrúnar er Jón Sveinn Friðriksson f. 12.8. 1945 og eignuðust þau fjögur börn:

a) Kristín Gunný Jónsdóttir f. 20.7. 1967, maki Hafsteinn Eyvindsson f. 15.3. 1963. Börn þeirra eru

1) Eva Rún f. 2.4. 1995, maki Alexander Már Bjarnason. Börn: Róbert Leó, Nadia Esmeralda og Camilla Stella.
2) Hafsteinn  f. 27.2. 2006. Hafsteinn Eyvindsson á þrjá stráka af fyrra hjónabandi, þá Halldór, Hafþór og Fannar.
b) Herdís Sölvína Jónsdóttir f. 10.3. 1972, fyrrum maki Haraldur Pétursson f. 10.8. 1970. Börn þeirra eru
1) Hulda f. 6.5. 1995, maki Martin Alexander Garenfeld. Börn: Ísak og Húgó.
2) Thelma Rut f. 25.9. 2002.
c)  Friðrik Ellert Jónsson f. 2.11. 1973, maki Vilborg Stefánsdóttir.

Börn þeirra eru 1) Daníel Már  f. 10.5. 1999. 2) Andrea Rut f. 18.9. 2003.
3) Alexandra Sif f. 25.12. 2009.
d)  Gunnar Örn Jónsson f. 26.11. 1981, maki Jóna Guðný Arthúrsdóttir.

Börn þeirra eru 1) Ásdís María  f. 24.7. 2013.
2) Guðný Birna  f. 6.11. 2017.

Jóna Guðrún ólst upp á Seltjarnarnesi og kláraði gagnfræðapróf frá Mýrarhúsaskóla. Á sínum yngri árum starfaði Jóna Guðrún við fiskvinnslu hjá Ísbirninum en á fullorðinsárum starfaði hún aðallega við ýmiskonar afgreiðslu- og þjónustustörf. Lengstan tíma starfsævi sinnar starfaði hún í Hagkaup í Kringlunni.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju í dag, 25. febrúar 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskuleg móðir okkar er fallin frá, flogin á vit nýrra ævintýra á fjarlægar slóðir sem ekkert okkar þekkir en við vonum og trúum því innilega að nú líði henni vel, laus við erfiðleika og þá þungu hlekki sem hún burðaðist með síðustu ár ævi sinnar.

Mamma var alltaf með allt á hreinu, gleymdi sjaldnast nokkru sem hún eða einhver annar þurfti að muna. Hún skrifaði flest niður sem einhverju máli skipti og það í sérstaka dagbók. Þar var allt skráð og þá sérstaklega fyrir hana og pabba. Meðal annars voru allir afmælisdagar skráðir í þá bók svo enginn afmælisdagur skyldi nú gleymast en hún mundi þá líklega allflesta þó barnabörnin væru orðin níu talsins og barnabarnabörnin fimm.

Mamma var sannarlega vinur vina sinna og traustur hlustandi. Það var alltaf hægt að treysta henni fyrir trúnaðarupplýsingum, hún stóð við það sem hún sagði og lofaði aldrei upp í ermina á sér.

Mamma var ávallt mætt á réttum tíma þangað sem hún átti að mæta, í vinnuna, á fundi, í veislur, til læknis eða hvað það nú var. Alltaf var hún mætt á réttum tíma og helst var hún mætt 15-20 mínútum of snemma, hún vildi bara alls ekki vera of sein.

Mamma var létt og kát á sínum yngri árum og það var alltaf stutt í fíflaganginn hjá henni en hún gerði aldrei grín á kostnað annarra. Hún var í eðli sínu hlédræg og vildi helst ekki draga að sér neina athygli, það máttu aðrir sjá um það að vera í sviðsljósinu.

En í þau skipti sem einhver hagaði sér ósæmilega að hennar mati eða gerði góðlátlegt grín að einhverju eða einhverjum þá brást hún oftar en ekki við með orðunum láttu nú ekki svona eða Guð, láttu nú engan heyra þetta í lágum og allt að því virðulegum tón.

Svona var mamma okkar, alltaf hugsaði hún hlýlega til náungans, hún var réttsýn og bar ætíð hag minni máttar fyrir brjósti.

Það sem veitti mömmu hvað mesta gleði voru samverustundir með fjölskyldunni og þá sérstaklega með barnabörnunum sínum sem hún elskaði af öllu hjarta og hafði óskaplega gaman af og að fá þau í heimsókn, heimsækja þau og passa á meðan heilsan leyfði. Í gegnum tíðina voru ófáar ferðir farnar með barnabörnunum í verslanir til að kaupa föt, ís eða annað góðgæti öllum til ómældrar gleði og ekki síst Jónu ömmu.

Mamma hafði óskaplega gaman af ferðalögum, bæði innanlands og erlendis, og þá sérstaklega erlendis. Þar var Ítalía í sérstöku uppáhaldi. Ferðuðust þau hjónin oft til Ítalíu, bæði tvö saman og með vinafólki. Gardavatnið þótti mömmu vera paradís á jörðu og Verona var einnig himnesk að hennar mati en hún hafði oft á orði að hún hlyti að hafa verið ítölsk í fyrra lífi. Hún einfaldlega elskaði allt við Ítalíu, landslagið, matinn, tónlistina og líklega veðurfarið!

Þegar að veislum eða matarboðum kom þá var minnsta mál að gera mömmu alsæla með góðu lasagna með parmesanosti, flóknara var það ekki!

Mömmu var alltaf umhugað um heilsu annarra en gerði lítið úr sínum eigin erfiðleikum. Síðustu árin var heilsunni farið að hraka þar sem hún greindist með langvinna lungnateppu fyrir 12 árum og fyrir 4 árum var hún farin að nota súrefniskút eftir þörfum. Undanfarin 2 ár voru lungun farin að erfiða það mikið að hún notaðist við súrefniskút að staðaldri. Það háði henni eðlilega afar mikið og heilsunni hrakaði smátt og smátt.

Undanfarin ár stóð æðruleysisbænin ávallt teinrétt á náttborði mömmu, grafin í hvítt gler, líklega til áminningar um daglegan kjark og æðri styrk í erfiðu verkefni.


Guð - gef mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og visku til að greina þar á milli.



Kvöldið sem mamma lést hafði hún á orði við hjúkrunarfræðinginn sem var að aðstoða hana, hvers vegna hún væri að standa í öllu þessu umstangi hennar vegna, þetta væri allt of mikið vesen og hún gæti nú alveg bjargað sér sjálf. Þetta var mamma okkar í hnotskurn, sjálfstæð og ákveðin og vildi helst enga aðstoð þrátt fyrir gríðarlegan vanmátt.

Þó að við, börnin hennar, höfum gert okkur grein fyrir því að það gæti verið stutt í endalokin þá bjuggumst við einhvern veginn ekki við því að sú stund væri að nálgast. Mamma var svo viljug og ákveðin, hún ætlaði sér alls ekki inn á hjúkrunarheimili og stundaði endurhæfingu af miklum móð, upp að því marki sem heilsan leyfði. Hún ætlaði sér heim aftur.

Það má því kannski segja að elsku yndislega móðir okkar hafi farið frá okkur 15-20 mínútum of snemma eins og henni var von og vísa!

Ef allir væru eins hugulsamir og mamma væri heimurinn enn fallegri og betri.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Elsku mamma!

Við munum geyma allar fallegu minningarnar í hugum og hjörtum okkar alla tíð!

Takk fyrir lífsgjöfina og ferðalagið allt, Guð geymi þig!

Gunnar Örn, Herdís og Friðrik Ellert.