” Mikil áhersla á innlenda matvælaframleiðslu og aðgerðir til að vernda hana hefur einnig leitt til þess að á Íslandi eru framleidd matvæli sem mun hagstæðara væri að framleiða annars staðar þar sem aðstæður eru betri og eru því dýrari en sambærileg matvæli sem hægt væri að flytja inn. 

Innlend framleiðsla

Hjörtur H. Jónsson

Forstöðumaður hjá ALM Verðbréfum hf.

Lengst af í Íslandssögunni voru Íslendingar aldrei fleiri en um það bil sextíu þúsund, en það var sá hámarksfjöldi sem landið gat fætt og klætt með nokkurn veginn sjálfbærum hætti. Á þessum tíma voru viðskipti við útlönd afar takmörkuð og meginatvinnugreinar landsmanna, sem voru landbúnaður og sjávarútvegur, þurftu að reiða sig á innlenda tækni og aðföng eingöngu.

Það var ekki fyrr en á nítjándu öldinni sem landsmönnum fór að fjölga eitthvað að ráði og ekki af alvöru fyrr en á tuttugustu öldinni en sú þróun var fyrst og fremst möguleg vegna mikillar framleiðniaukningar í grunnatvinnuvegum sem fylgdi innfluttri tækni og aðföngum.

...