Maður sem ákærður er fyrir að hafa stungið móður sína til bana í fjölbýlishúsi í Breiðholti í október á síðasta ári neitaði sök fyrir dómi. Fyrirtaka var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

„Hann neitar sök og segist ekki vita hvað gerðist. Hann gaf ekki neina skýrslu nema neitaði þessu með þeirri skýringu að hann vissi ekki hvað hefði gerst,“ sagði Gísli M. Auðbergsson, verjandi mannsins, við mbl.is
í gær. Að sögn Gísla var lögð fram geðrannsókn þar sem sonurinn er metinn ósakhæfur. Maðurinn er sakaður um að hafa stungið móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi í brjóstsvæði, handleggi og hendur, en stungurnar gengu m.a. inn í hægra lunga sem leiddi til dauða hennar.