
Skrifað var undir kjarasamning í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga á tólfta tímanum í gærkvöldi. Samningurinn byggist á innanhússtillögu ríkissáttasemjara sem lögð var fram í síðustu viku. Breytingar voru gerðar á forsenduákvæði sem styr hafði staðið um en þær breytingar munu meðal annars fela í sér skipun forsendunefndar sem geti greitt úr deilum sem kunna að koma upp á samningstímanum. Samningurinn gildir til næstu fjögurra ára. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagðist vera sáttur við samningana eftir langa fæðingu. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, kvaðst vera stoltur af þeirri vinnu sem kennarar hefðu skilað í kjarasamningunum og ánægjulegt væri að öll aðildarfélög Kennarasambandsins hefðu skrifað undir samninginn.