Höfundurinn Bækur Arnaldar Indriðasonar eru vinsælar víða um heim.
Höfundurinn Bækur Arnaldar Indriðasonar eru vinsælar víða um heim. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Gengið hefur verið frá samningi um útgáfu á verkum Arnaldar Indriðasonar á tungumálinu telugu, að því er segir í tilkynningu frá íslensku bókmenntaumboðsskrifstofunni Reykjavík Literary Agency (RLA).

Telugu er að sögn RLA 45. tungumálið sem bækur ­Arnaldar eru seldar á og samkvæmt útgefandanum, Chaaya Books, er þetta í fyrsta skiptið sem bók frá Íslandi er gefin út á telugu. Málið er einkum talað í suðausturhluta Indlands, þar sem hátt í 100 milljónir manna hafa tungumálið að móðurmáli.

Í tilkynningunni segir jafnframt að Arnaldur sé ekki aðeins sá höfundur sem mest hefur selst á Íslandi heldur einnig sá höfundur sem selst hefur mest á erlendri grundu. Bækur hans hafa komið út í meira en 1.500 erlendum ­útgáfum og selst í yfir 20 ­milljónum eintaka.