
Það var athyglisverð grein í blaðinu, þar sem höfundur gerði því skóna að það væri allt í lagi að sameina tvo banka því samkeppnin væri hvort eð er svo lítil. Hann sagðist líka þekkja vel til reksturs bankafyrirtækja svo orð hans eru ekki út í bláinn.
Þarna var talað um almenn lánakjör bæði til almennings og fyrirtækja.
Þarna væru enn góð tækifæri fyrir lántakendur, eins og sagt er, þrátt fyrir að bönkum myndi fækka.
En það var einn hluti almennrar bankastarfsemi sem ekki var nefndur, og líkt og ekki þyrfti neinnar samkeppni með, en það var ávöxtun sparifjár.
Glataður er geymdur eyrir, er stundum haft á orði, og á vissulega oft við, sérstaklega í samanburði við steinsteypu, en samt eru menn að nurla þetta fram eftir ævinni, við lítinn ábata og stundum rakið tap.
Væri það ekki gott mál fyrir bankana, sem eftir verða, að keppa um hylli þeirra sparsömu, eða vita bankarnir ekki aura sinna tal og munar ekki um slíkt lítilræði?
...