
Samsýningin Í lit verður opnuð í Gallerí Úthverfu á Ísafirði á laugardag, 1. mars, klukkan 16. Þann dag verða 40 ár liðin frá því fyrst var opnuð sýning á samtímalist í rýminu við Aðalstræti 22 á Ísafirði.
Á sýningunni má finna verk fjögurra listamanna; Katrínar Agnesar Klar, Önnu Hrundar Másdóttur, Eyglóar Harðardóttur og Ingibjargar Sigurjónsdóttur. Sýningarstjóri er Ingólfur Arnarsson, en hann var fyrsti listamaðurinn til að opna sýningu í rýminu 1. mars 1985.
„Ég hef haft þann háttinn á að smella af myndum á símann þegar ég rekst á áhugaverð listaverk. Það var því nærtækt fyrsta skref að skrolla í gegnum nýlegt myndasafn. Eitt af því sem blasti við voru ýmis verk þar sem meðferð lita var afgerandi. Þannig spratt fram val mitt á verkum og listamönnum fyrir þessa samsýningu,“ segir sýningarstjórinn Ingólfur í sýningartexta.
Sýningin stendur til 13. apríl.