Calin Georgescu
Calin Georgescu

Lögreglan í Búkarest handtók í gær forsetaframbjóðandann Calin Georgescu og færði til yfirheyrslu. Georgescu er grunaður um stórfelld kosningasvik, en hann var tiltölulega óþekktur áður en hann varð óvænt hlutskarpastur í fyrri umferð rúmensku forsetakosninganna í fyrra.

Hæstiréttur Rúmeníu ógilti svo kosningarnar í ljósi sönnunargagna um að Georgescu hefði notið umtalsverðrar aðstoðar frá rússneskum stjórnvöldum, meðal annars með netárásum og í formi auglýsinga sem ekki voru tilkynntar til kjörstjórnar í gegnum snjallsímaforritið TikTok.

Er talið að rúmensk stjórnvöld muni sækjast eftir því að banna Georgescu að bjóða sig fram þegar kosið verður að nýju í maí.