
Ingibjörg Gunnarsdóttir
Rannsóknatengt framhaldsnám forsenda framfara
Árangurstengd fjármögnun háskóla var kynnt í september 2023 þar sem nýtt fjármögnunarlíkan háskóla tók við af eldra reiknilíkani. Í fyrsta sinn var settur inn hvati fyrir háskóla til að sækja erlenda styrki auk þess sem vægi útskrifaðra doktorsnema var aukið. Þessi hvatning er mikilvæg og mun án efa skila sér í því að háskólar á Íslandi haldi áfram að vaxa og dafna sem rannsóknaháskólar og geti boðið upp á rannsóknatengt framhaldsnám. Fjöldi einstaklinga sem lokið hafa framhaldsnámi frá Háskóla Íslands á síðastliðnum 20 árum starfar nú sem leiðtogar víða í atvinnulífinu, bæði innan fyrirtækja og mikilvægra stofnana.
Kostnaður við kennslu mismunandi greina
Það olli mér hins vegar vonbrigðum að sjá að enn væri stuðst við svokallaða reikniflokka fyrir mismunandi námsgreinar í nýju líkani. Hugmyndin með mismunandi reikniflokkum var á sínum tíma að taka tillit til viðbótarkostnaðar. Kostnaður við kennslu í greinum eins og efnafræði og lyfjafræði felst ekki bara í launakostnaði kennara og rekstri á almennu kennslurými, heldur þarf að gera ráð fyrir viðbótarkostnaði við rekstur á kennslustofum fyrir verklega þjálfun, kaupum á búnaði og efnum auk þess sem þörf er á sérhæfðu starfsfólki til viðbótar við akademíska starfsmenn til að sjá um flókinn tækjabúnað og aðföng. Í nútímabókhaldi er mjög auðvelt að aðgreina þennan kostnað. Innan allra fræðasviða Háskóla Íslands er jafnframt að finna námskeið sem eru það krefjandi fyrir nemendur að þörf er á sérstökum viðbótarstuðningi í formi dæmatíma eða stuðningstíma. Þessi námskeið eru ekki bundin við námsgreinar sem í dag eru í hærri reikniflokkum. Aftur vil ég benda á að auðvelt er að halda sérstaklega utan um slíkan viðbótarstuðning, enda gætum við með þeim hætti betur metið hvort stuðningurinn skili sér í bættum árangri nemenda okkar.
Nýtum orku háskólasamfélagsins í annað en ágreining
Gríðarlega orka hefur farið í umræðu um reikniflokka innan háskólasamfélagsins allt frá því að ég hóf störf í Háskóla Íslands fyrir um 20 árum. Mögulega buðu bókhaldskerfi þess tíma ekki upp á meiri nákvæmni við mat á kostnaði við kennslu mismunandi námsgreina. Ég er ekki með háskólagráðu í fjármálum, en geng út frá því að það sé mjög auðvelt verkefni fyrir þau sem vinna við fjármál alla daga. Mögulega verður útkoman svipuð og með þeim aðferðum sem við notum í dag. En ég er sannfærð um að krafa um nákvæmari útreikninga á mismunandi kostnaðarliðum myndi auka traust og starfsánægju og koma í veg fyrir að starfsfólk upplifi mismunun, bæði innan Háskóla Íslands og milli háskóla á Íslandi.
Höfundur er aðstoðarrektor vísinda og samfélags við Háskóla Íslands, prófessor í næringarfræði og í framboði til embættis rektors Háskóla Íslands.