
Stella Guðnadóttir fæddist 2. desember 1928. Hún lést 14. febrúar 2025 á Hrafnistu í Reykjavík.
Foreldrar hennar voru Kristín Þóra Guðbjörg Vigfúsdóttir, húsmóðir og saumakona, fædd 12. september 1906, frá Gerðakoti á Álftanesi, dáin 10. október 1986 og Guðni Jónsson sjómaður frá Bjarnastöðum á Álftanesi, fæddur 13. ágúst 1904, dáinn 7. júní 1975.
Systkini hennar eru Bragi, f. 1931, Gíslína Vigdís, f. 1940, d. 20. mars 2023, Óskar Guðjón Vigfús, f. 1944, d. 17. febrúar 2025, uppeldissystir hennar var Helga Ágústa Vigfúsdóttir, f. 1933, d. 22. mars 2016.
Stella fæddist í Hafnarfirði og fluttist síðan að Þórukoti á Álftanesi. Árið 1947 fluttist hún að Kirkjuteig 11, Reykjavík, ásamt foreldrum sínum og systkinum.
Eiginmaður Stellu var Kjartan Ó. Þórólfsson, bifreiðarstjóri og ökukennari, f. 18. maí 1924, d. 10. júní 1993.
Þau gengu í hjónaband 4. október 1947, lengst af bjuggu þau í Ásgarði 73.
Börn Stellu og Kjartans eru Rósa Sigríður, f. 1947, Vigdís Þórný, f. 1950, Guðni, f. 1962, og Kjartan, f. 1964. Barnabörnin eru 13, langömmubörn eru 35 og langalangömmubörn eru fimm.
Stella gekk í barnaskóla á Álftanesi og tók gagnfræðapróf frá Ingimarsskóla í Reykjavík. Stella hóf störf við bókhald hjá Landssmiðjunni og vann þar til 1962. Lengst af starfaði hún á skrifstofu Verkakvennafélagsins Framsóknar í Reykjavík allt til starfsloka. Stella hafði alla tíð mikinn áhuga á félagsstörfum. Hún gekk í Kvenfélag Bústaðakirkju, var afar virk í uppbyggingu safnaðarstarfsins og gegndi þar stöðu formanns á tímabili.
Útför Stellu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 27. febrúar 2025, kl. 13.
Elsku amma.
Þú hefur fengið langþráða hvíld. Minningarnar streyma þessa dagana.
Ég fimm ára búin að læra símanúmerið þitt, ég lítil skotta var með þér í
Bústaðakirkju á sunnudegi. Ég að koma í Ásgarðinn og þú kallaðir glaðlega
frá efstu hæðinni halló hver er þar?. Þegar ég kom í næst efstu tröppuna
sagðirðu nei, ertu komin góða mín, mikið er gott að sjá þig. Alltaf
hlýlegar móttökur og ekki í boði að neita veitingum ég er með nýlagað, ég
ætla skella í vöfflur sama í Marklandinu, ekki í boði að segja nei og fyrr
en varir varstu búin að dúka upp borð.
Ég var fjögurra ára þegar við fjölskyldan fluttum Grenivíkur, þó ég hafi
verið lítil man ég að það var skrítið að kveðja ykkur afa. Þið komuð
reglulega í heimsókn og ég fékk að koma suður til ykkar. Það var spennandi
að eiga ömmu og afa í Reykjavík, maður varð svo veraldarvanur. Þú kenndir
mér að passa mig á bílunum í stórborginni og að ferðast um með strætó. Í
dyggri fylgd fór ég yfir Réttarholtsveginn með þér, en þegar þú sást að ég
var nógu örugg fékk ég að fara sjálf og labba stokkinn út í Espigerði til
Rósu. Þú varst skýr ekki yfir Grensásveginn, þar beið Rósa og fylgdi mér
yfir.
18 ára flutti ég til Reykjavikur og þökk sé ykkur afa fékk ég að búa á efri
hæðinni á Kirkjuteig 11. Ég var stolt yfir þessu fyrsta heimili mínu. Þú
kenndir mér að grænsápa væri nauðsyn á parketið og það væri óþarfi að
blautþvo gólfin í hverri viku. Þú sást mér fyrir uppskrifum og reddaðir mér
vinnu við skúringar með skólanum. Ég kom reglulega í kaffi til þín upp í
Skipholt á skrifstofu verkakvennafélagsins Framsóknar, í spjall við ykkur
kellurnar eins og þú sagðir. Amma, veistu að þú varst minn tryggi punktur í
lífinu á þessum tíma.
Árin mín í Reykjavík varstu minn allra nánasti fjölskyldumeðlimur, þú hjálpaðir mér að velja og sauma gardínur fyrir heimilin mín, bakaðir fyrir afmæli og varst klappstýran mín. Þegar ég hélt afmæli þurfti ég aldrei að bjóða þér, þú hringdir og sagðir hvaða dag ætlarðu að halda upp á afmælið? Þú gerðir ráð fyrir okkur í annasömum heimi þinum og þú vissir að þú áttir öruggan stað hjá okkur, þetta var aldrei flókið.
Þú hafðir áhrif á alla sem hittu þig. Vinkonur mínar kölluðu þig ömmu Stellu, þú spurðir frétta af þeim og sendir vettlinga er börnin þeirra fæddust. Það er svo yndislegt hvernig fólkið í kringum mig hafa ávallt spurt um þig þó árin líði. Þegar ég færði fréttirnar um andlát þitt var sagt elsku amma Stella, hún var svo góð og falleg kona, góð fyrirmynd. Það er rétt elsku amma, það er akkúrat þessi arfur sem þú skilur eftir þig. Fólki leið vel sem hitti þig, þú dæmdir ekki fólk og komst vel fram, þú sýndir samferðarfólki áhuga og óskaðir heitast eftir sáttum og heiðarleika. Þú studdir fólkið þitt, þú hafðir þessi góðu gildi, eins og maður segir í dag.
Árið 2005 flutti ég til Svíþjóðar og ætlaði mér heim aftur eftir tvö ár. Þegar við kvöddumst sagðirðu jæja góða mín, ég skal reyna halda mér lifandi þangað til þú kemur aftur. Þú hélst fast í þetta loforð þrátt fyrir að árin hafi orðið mun fleiri. 2017 sagðirðu þó við mig: Anna Rósa mín, ég veit ekki hvort ég geti staðið við loforðið mikið lengur. Sameiginlega völdum við að rjúfa þennan samning okkar, ég vissi ekki hversu lengi þú þyrftir að bíða, þú varst nærri 90 ára.
Þú elskaðir börnin mín og þú átt sérstakan stað í hjarta þeirra. Það gladdi þig mikið að þau kunnu að tala góða íslensku, þú hrósaðir þeim og sagðir "mikið ertu fallegur drengur, mikið ertu góð stúlka" og varst áhugasöm um áhugamál þeirra. Þegar börnin voru lítil keypti og ég fínar fóðraðar eða vatnsheldar lúffur til að hafa í skólanum, fljótt komst ég að því að því hefði ég getað sleppt, þau sættu sig aldrei við neitt annað en ullarvettlinga frá ömmu Stellu. Þú sást alltaf til þess að litlir fingur hefðu hlýja og góða vettlinga sem pössuðu.
Í hjarta mínu mun ég ávallt geyma eina af okkar síðustu stundum. Áramótin 2023/2024 var ég á Íslandi. Við komum í heimsókn með barnabarnið mitt, þú ljómaðir er þú sást hann, þið brostuð og horfðuð í augu hvort annars, þú hélst í höndina hans og spjallaðir við hann. Er hann var órólegur sagðirðu kærleiksröddu komdu þá, ég skal þá taka þig. Þetta var dýrmætt og fallegt augnablik, hann nokkurra mánaða og þú 95 ára, ég er svo þakklát fyrir að þið fenguð að hittast. Elsku amma, ég veit þú myndir segja að hann þurfi að eiga góða og hlýja vettlinga. Ég skal sjá til þess en ég mun ekki geta prjónað eins og þú, það gerðir þú best.
Elsku amma Stella, takk fyrir allt þú hefur kennt mér og verið mér, ég skal gera mitt besta að fylgja gildum þínum og gera þig stolta.
Guð blessi og varðveiti minningu þína.
Krakkarnir og Sigmund senda þér kærleikskveðjur og þakka líka fyrir allt.
Þín dótturdóttir
Anna Rósa.