
— AFP/R.Satish Babu
Hindúar á Indlandi fjölmenntu á trúarhátíðina Maha Shivratri og fylltu þar musteri, en hátíðin er tileinkuð guðinum Shiva sem er þriðji guðinn í guðaþrenningu hindúa. Hlutverk hans er að eyða heiminum svo hægt sé að endurskapa hann í breyttri mynd.
Hátíðin, sem í lauslegri þýðingu mætti kalla nótt Shiva, er haldin nóttina og daginn á undan nýju tungli í svokölluðum Magh-mánuði. Hjá hindúum táknar nóttin hið illa, óréttlæti, fáfræði og ógæfu en við nýtt tungl birtir hins vegar yfir nóttinni. Nýtt tungl er þannig tákn guðsins Shiva, tákn um nýtt upphaf.
Á þessum degi fagna hindúar einnig brúðkaupi Shiva og gyðjunnar Parvati sem er holdgervingur kvenlegrar frumorku. Er gyðja þessi bæði góð og móðurleg.