
Nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft nokkur áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir, að því er fram kemur í greiningu Íslandsbanka sem birt var í gær í tilefni verðbólgumælingar Hagstofunnar.
„Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% í febrúar. Verðbólga á ársgrundvelli lækkaði því úr 4,6% í 4,2%. Verðbólga án húsnæðis hjaðnaði úr 3,0% í 2,7%.
...