— Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Við stefnum á að selja 105 þúsund bækur í ár, en við seldum 100.425 bækur í fyrra,“ segir Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, en árlegur bókamarkaður félagsins var opnaður í gær í Holtagörðum.

„Við höfum verið með bókamarkað árlega, nánast frá árinu 1922, svo markaðurinn hefur skapað sér ákveðinn sess í menningarlífi borgarinnar,“ segir Bryndís og bætir við að markaðurinn hafi verið víða um bæinn. „Um miðja síðustu öld var hann lengst af í Listamannaskálanum við Austurvöll, en hefur líka verið í Perlunni, Laugardalshöll, Eiðistorgi og víðar en núna erum við í Holtagörðum við hliðina á Bakarameistaranum.“

Næstum sjö þúsund bókatitlar eru á markaðnum og í ár er sérstaklega mikið af barnabókum. Segist Bryndís vonast til að foreldrar mæti með börn sín í leit að góðu lesefni.

...