
Landsliðið
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er með eitt stig eftir tvo leiki í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Ísland gerði markalaust jafntefli við Sviss í Zürich síðastliðinn föstudag og mátti síðan þola tap fyrir Frakklandi í Le Mans á þriðjudaginn var, 3:2. Eftir tvær umferðir er Frakkland með sex stig, Noregur þrjú og Ísland og Sviss með sitt stigið hvort.
„Þetta var eins og við var að búast á þessum tíma árs. Sumir leikmenn eru á miðju tímabili og aðrir á undirbúningstímabilinu. Þetta lyktaði svolítið af því. Það var margt gott í þessu og sérstaklega í varnarleiknum,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðsins með 79 mörk í 124 leikjum, í samtali við Morgunblaðið.
...