
Lilja Guðrún Eiríksdóttir fæddist 29. ágúst 1926 á Dröngum í Árneshreppi á Ströndum. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 17. febrúar 2025 eftir skyndileg veikindi.
Foreldrar hennar voru Karítas Ragnheiður Pétursdóttir Söebeck, f. 11. september 1892, d. 1. janúar 1989, og Eiríkur Guðmundsson, f. 7. janúar 1895, d. 25. júní 1976.
Lilja Guðrún var fimmta barn þeirra hjóna, systkini hennar voru Guðmundur, f. 1918, Aðalsteinn, f. 1919, Ágústa, f. 1921, Anna, f. 1924, Elín, f. 1927, Pétur, f. 1931, og Álfheiður, f. 1935, sem lifir systkini sín.
Hinn 19. maí 1956 giftist Lilja Friðberti Elí Gíslasyni hvalveiðiskipstjóra, f. 21. júní 1927, d. 2. október 1980, frá Suðureyri í Súgandafirði. Foreldrar hans voru Þorbjörg Guðrún Friðbertsdóttir, f. 14. ágúst 1905, d. 6. maí 1987, og Gísli Guðmundsson, f. 14. janúar 1901, d. 22. júlí 1981.
Börn Lilju og Elís eru: 1) Hafsteinn Ómar, f. 1948, maki Soffía Jónsdóttir, og þau eiga Jórunni, Lárus, Bjarneyju Oddrúnu og Lilju Vilborgu. 2) Friðbert, f. 1956, maki Rúrí Valgeirsdóttir og þau eiga Gísla Pál, Friðbert Elí og Agnar. 3) Elín, f. 1957, maki Stefán Sigurðsson, d. 2016, og þau eiga Stefán Elí, Sigurð Helga, d. 2025, og Bjarka Má. 4) Anna, f. 1962, maki Stefán Þorvaldsson og þau eiga Lindu Ósk, Evu Dögg, Sölva, Maren, Júlíönu og Lilju Guðrúnu. 5) Þorbjörg Guðrún, f. 1964, maki Kristján Stefánsson, d. 2008, og þau eiga Friðbert Elí og Karólínu Birgittu. Langömmubörnin eru 40 talsins.
Lilja ólst upp á Dröngum og stundaði nám í Finnbogastaðaskóla og í Húsmæðraskólanum á Laugalandi. Hún flutti á Akranes 1947 og þar fæddist Hafsteinn Ómar. Hún fór síðar að Dröngum og aðstoðaði foreldra sína við búrekstur þar til þau brugðu búi árið 1953 og fluttu í Kópavoginn. Hún vann í saumastofunni Feldinum þar til skipstjórinn rændi henni eins og fólk grínaðist með árið 1955.
Lilja og Elí hófu búskap í Hlégerði 29 í Kópavogi og byggðu sér svo hús við Þinghólsbraut 76 sem þau fluttu í árið 1963. Það var mikið áfall fyrir hana þegar Elí lést árið 1980 eftir tveggja ára baráttu við krabbamein.
Árið 1982 hóf hún störf sem handvinnukennari í dagvist Sjálfsbjargar og starfaði þar þar til hún fór á eftirlaun árið 1996.
Lilja var alla tíð mikil húsmóðir og hannyrðakona. Hún var mikill tónlistarunnandi og tók þátt í kórstarfi í Kópavogi.
Árið 2021 flutti Lilja á Hrafnistu í Hafnarfirði og naut góðrar umönnunar á Bylgjuhrauni. Árið 2022 tók hún aftur upp pensilinn eftir nærri 70 ára hlé en hún hafði farið á málaranámskeið í Reykjavík árið 1953. Hún kláraði sína síðustu mynd nokkrum dögum fyrir andlátið.
Útför Lilju Guðrúnar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 28. febrúar 2025, kl. 13.
Fyrir stuttu tók Nína, ömmustelpan hennar, viðtal við hana fyrir skólaverkefni um stríðsárin á Íslandi. Þar rifjaði mamma upp daginn sem Bretar hernámu Ísland, þá var hún 14 ára og Ella systir hennar 13 ára í Finnbogastaðaskóla og þær voru sendar á símstöðina til að athuga af hverju það var orðið símasambandslaust og báru þær skólastjóranum þær fréttir að Ísland væri hernumið. Hún rifjaði líka upp að það hefði komið þýskur njósnari fótgangandi að Dröngum og honum var auðvitað boðin gisting eins og var til siðs á þessum tímum. Hún talaði líka um að þau hefðu heyrt þegar skip voru sprengd í flóanum. Það rak líka ýmislegt góðmeti á land eins og súkkulaði í stórum blikkdósum. Tískan breyttist við hernámið og þær systur fengu föt sem þá voru orðin móðins eins og leðurstígvél, smekkbuxur og leðurhúfur. Þau upplifðu líka öskrin í bjarndýrum en urðu sem betur fer ekki á vegi þeirra.
Mamma var mikil Strandakona og hugsaði alltaf heim að Dröngum og sum okkar eru svo heppin að hafa farið með henni þangað í dagsferð, skoðað bæinn og jörðina.
Mamma stundaði nám í húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði og hún var snilldarkokkur og mikil hannyrðakona. Það lék allt í höndunum á henni og hún fékk endalaust hugmyndir að nýjum verkefnum í hekli, prjóni og saumi. Þegar hún fluttist alfarið frá Dröngum til Reykjavíkur árið 1953 hóf hún störf á saumastofu Feldsins sem var stofnuð nokkru áður en hún hóf þar störf og starfaði þar til loka ársins 1955. Hún saumaði alla tíð fallegan og vandaðan fatnað og það voru ófáir sem leituðu til hennar eftir aðstoð við klæðskerasaum.
Við áttum góða æsku á fallegu fjölskylduheimili sem þau byggðu á Þinghólsbrautinni þar sem mörg börn voru í hverju húsi og heilu fylkingarnar í hverri götu. Við höfðum móann með berjalyngi, sleðabrekku og bryggjuna. Þar var hangið við dorgveiðar og húkkaðir krossfiskar sem voru síðan þurrkaðir í kyndiklefanum heima við lítinn fögnuð mömmu því lyktin var ekki góð. Það var stutt að fara á öskuhaugana en það var bannað og við hlýddum og þarna er núna uppáhaldsbaðstaður okkar systra. Það var stutt heim til afa og ömmu á Kópavogsbrautinni og þar var ævinlega mikið um að vera því mörg systkini mömmu bjuggu í Kópavoginum og sum voru á Akranesi og þangað fórum við líka reglulega okkur til skemmtunar.
Þegar við vorum börn fór mamma með okkur inn í Hvalfjörð á hverju sumri í nokkrar vikur þar sem hún tjaldaði til að vera nálægt pabba þegar hann kom inn með hvali. Í minningunni var þetta dásamlegur tími á svæði þar sem var lækur og fallegar hlíðar og útsýni út á fjörðinn. Við munum líka eftir þegar hælarnir voru teknir upp og tjaldinu var snúið eftir vindáttum. Mamma fór með pabba í nokkra túra í senn á hverju sumri, það var hennar húsmæðraorlof og við fengum að vera hjá frændfólki á meðan. Áttu hvalveiðarnar eftir að fylgja henni alla ævi þar sem bræður okkar stunduðu einnig hvalveiðar með hléum þar til nýverið.
Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar pabbi greindist með krabbamein rúmlega fimmtugur og lést 2. október 1980 eftir tveggja ára erfiða baráttu. Þetta var mömmu mjög þungbært og hún syrgði hann alla tíð. Þau elskuðu hvort annað en fengu alltof stuttan tíma saman.
Árið 1982 hóf hún störf sem handavinnukennari í dagvist Sjálfsbjargar og starfaði þar af alúð og nærgætni með fólkinu þar, þangað til hún fór á eftirlaun árið 1996. Hún var ötul við að finna nýjar leiðir til að kenna þeim ýmsar hannyrðir sem höfðu misst mátt eða sjón. Hún fór sjálf á ýmis námskeið til að kynnast einhverju nýju og var endalaust þolinmóð að leiðbeina öllum þeim sem leituðu til hennar með saumaskap og prjón.
Mamma var mikill tónlistarunnandi, söng mikið heima og var í nokkrum kórum. Hún elskaði Bítlana og Presley, ættjarðarlög og Helga Björns. Hún elskaði vorin og sumrin og naut þess að ferðast innanlands sem utan og um tíu ára skeið fór hún á hverju ári til Tenerife eða þar til hún var 93 ára en þá fór hún í sína síðustu utanlandsferð.
Mamma fór á Hrafnistu í Hafnarfirði þegar hún var nærri 95 ára og bjó þar í fallegu herbergi með sjávarútsýni. Hún tók þátt í félagsstarfinu þar og þegar hendurnar gátu ekki lengur prjónað eða heklað var hún hvött af starfsfólki vinnustofunnar til að taka upp pensilinn aftur eftir tæplega 70 ára hlé, sem hún gerði og málaði myndir af fuglum handa börnum og ömmubörnum og nokkrar myndir frá Dröngum og af Kópavogskirkju. Hún kláraði sína síðustu mynd sama dag og hún veiktist alvarlega um kvöldið.
Síðustu dagar voru erfiðir og mikill sársauki, að auki voru brostin hjörtu vegna fráfalls Sigga sonar Ellu sem dó 4. febrúar eftir erfiða baráttu við krabbamein og það var mömmu mjög þungbært. Á bráðamóttökunni daginn fyrir jarðarförina hans sagði mamma að hún kæmist ekki í jarðarförina og bað okkur um helsjúk að finna engil sem hún hafði heklað og setja í kistuna hans. Þannig var mamma, hún var alltaf að hugsa um aðra, alveg fram á síðasta dag. En það var líka hugsað vel um hana á Bylgjuhrauni, það sáum við þegar við sátum yfir henni síðustu dagana sem hún lifði. Við upplifðum það allan sólarhringinn og okkur langar að þakka sérstaklega Milenu, Agötu, Hildi og Hugrúnu fyrir einstaka umönnun og hlýju og segjum eins og mamma sagði og brosti: Þetta eru góðar konur.
Ég lék við þinn gulllokkinn bjarta
og leit inn í augun þín blá.
Þar inni með hugföngnu hjarta
minn himnanna himin ég sá.
Ég kom við þinn kafrjóðan vangann,
oss kossinn á vörunum brann;
svo rósblíða ununar angan
ég aldrei í heiminum fann.
Vor hjörtu þann fögnuð þá fundu,
sem flýðu því miður svo skjótt,
við lifðum á líðandi stundu,
og ljósið varð bráðum að nótt.
En sem þegar smásólir hreinar
í silfurdaggdropunum gljá,
svo spegluðust eilífðir einar
í augnablikunum þá.
Þínar dætur,
Elín, Anna og Þorbjörg.