
The Icelandic Pop Orchestra verður á fjölum Salarins í Kópavogi á morgun, sunnudaginn 2. mars, klukkan 16.
Þar flytur hljómsveitin sína eigin tónlist sem sprottin er úr sameiginlegum reynslubrunni, allt frá sjötta tug síðustu aldar, að því er segir í viðburðarkynningu á vefsíðu Salarins. Þar segir jafnframt að flestir félagar hljómsveitarinnar séu að góðu kunnir en á gítar spili þeir Björn Thoroddsen og Tryggvi Hübner, hljómborðsleikarar séu þeir Pétur Hjaltested og Þórir Baldursson, Jón Kristinn Cortez leiki á bassa og Þorsteinn Gunnarsson á trommur. Þá sjái þau Íris Sveinsdóttir, Lýður Árnason, Jón Rósmann og Þorvaldur Gylfason um sönginn með aðstoð Dagnýjar Hængsdóttur, Ástu Hrannar Ásgeirsdóttur og Agnesar Sólmundsdóttur en einnig sé von á gestasöngvurum á svið. Sviðsstjórnandi verður svo Vignir Jóhannsson sem er sérlegur listhönnuður hljómsveitarinnar.