Ísland komst rækilega í sviðsljós heimsins þegar heimsmeistaraeinvígið í skák var haldið í Reykjavík árið 1972. Þar áttust við Boris Spasskí og Bobby Fischer. Í Laugardalshöllinni sátu ekki aðeins tveir menn að tafli. Einvígið var hluti af refskák og stórveldaríg Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í kalda stríðinu miðju.
Fischer var undrabarn í skák, sérvitur einfari og snillingur, sem setti fram óbilgjarnar kröfur og fór sínu fram. Í huga flestra var hann þó einn að bjóða sovésku mulningsvélinni í skák birginn. Bandaríkjamaður hafði aldrei áður unnið sér rétt til að skora á heimsmeistarann í skák og frá 1946 höfðu heimsmeistaraeinvígi ávallt verið milli sovéskra skákmanna.
En þótt Spasskí væri afsprengi hinnar sovésku skákvélar var hann engan veginn dæmigerður fulltrúi hennar og passaði einhvern veginn aldrei inn í hina sovésku
...