
Í frumkvöðlasetrinu The Innovation House á Eiðistorgi er hin keníska Grace Achieng með litla skrifstofu þar sem tískufyrirtæki hennar Gracelandic er með aðsetur. Grace tekur á móti blaðamanni sem virðir fyrir sér fullar slár af kjólum, skyrtum og samfestingum sem þar hanga, allt úr fínasta hrásilki eða hör. Fötin eru öll hönnuð af Grace, framleidd í Tyrklandi og Rúmeníu. Grace segir að stuttu eftir að hún hafi sett fyrirtækið á laggirnar hafi hún fengið tölvupóst frá Vogue en var efins um að hann væri ekta.
„Einhver rak augun í þetta og spurði mig hvers vegna ég væri ekki búin að svara þessum pósti. Ég trúði ekki að þetta væri raunverulega frá Vogue en það var skorað á mig að svara sem ég gerði. Þetta var ekki svindl og það endaði á að ég fékk umfjöllun í Vogue og það þrisvar! Eftir það var mjög mikil traffík á síðunni minni og einn af mínum fyrstu viðskiptavinum
...