
Íslandsmet Eir Chang Hlésdóttir, í miðjunni, bætti Íslandsmetið í 200 metra hlaupi á meistaramóti Íslands í Laugardalshöll um síðustu helgi.
— Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Margt fremsta frjálsíþróttafólk landsins mætir til leiks á Bikarmóti FRÍ í Kaplakrika í dag, laugardag. FH er ríkjandi bikarmeistari.
Á meðal keppenda er ÍR-ingurinn Eir Chang Hlésdóttir, sem sló 21 árs gamalt Íslandsmet Silju Úlfarsdóttur í 200 metra hlaupi á meistaramótinu um síðustu helgi.
FH-ingarnir Daníel Ingi Egilsson og Irma Gunnarsdóttir mæta einnig til leiks. Daníel keppir í langstökki og Irma í lang- og þrístökki. Daníel sló 30 ára Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar á síðasta ári og Irma bætti 26 ára gamalt Íslandsmet Sigríðar Önnu Guðjónsdóttir í þrístökki árið 2023.
Þá keppir ólympíufarinn Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR í kúluvarpi en hún hefur verið fremsti kúluvarpari Íslands undanfarin ár og er Íslandsmethafi.