TikTok-stjarna Kenya Grace verður meðal gesta á Iceland Airwaves.
TikTok-stjarna Kenya Grace verður meðal gesta á Iceland Airwaves. — AFP/Jason Koerner

Iceland Airwaves opinberaði á dögunum fyrstu listamennina sem munu koma fram á hátíðinni í Reykjavík dagana 6. til 8. nóvember 2025. Segir í tilkynningu að hátíðin hafi greint frá því að fram komi 19 íslenskir listamenn og 16 erlendir, þar á meðal rappstjarnan ian og TikTok-stjarnan Kenya Grace. „Í ár fagnar hátíðin fjölbreytni íslenskrar tónlistar með því að taka á móti tónlistar- og leikkonunni Elínu Hall og tripphoppskotnum tónum Sunnu Margrétar. Iceland Airwaves mun einnig hýsa hinn orkumikla popp- og raftónlistardúett Milkywhale, hið virta tónskáld, hljómborðsleikara og útsetjara Magnús Jóhann auk tilraunakenndu hávaðapönksveitarinnar Tófu.“ Þá stíga einnig á pall rappararnir Daniil, Floni og Izleifur ásamt mörgum fleirum sem og hljómsveitin Fat Dog frá London en sveitin hefur hlotið mikið lof fyrir taumlausa sviðsframkomu og frumraun sína, Woof, sem kom út í fyrra.