Félagar Biskupinn hefur lengi verið í miklum samskiptum við Pútín.
Félagar Biskupinn hefur lengi verið í miklum samskiptum við Pútín. — Ljósmynd/Kreml

Rússneska leyniþjónustan (FSB) segist hafa komið í veg fyrir morðtilræði á Tikhon Shevkunov, biskupi rétttrúnaðarkirkjunnar og andlegum ráðgjafa Rússlandsforseta. Er leyniþjónusta Úkraínu (GUR) sögð hafa lagt á ráðin um fyrirhugað morð.

Shevkunov hefur verið í nánum samskiptum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta undanfarna þrjá áratugi hið minnsta. Þeir hafa margsinnis sést opinberlega saman og eru sagðir eiga í miklum samskiptum um hin ýmsu málefni. Dráp á honum hefði því snert forsetann persónulega.

FSB segist hafa handtekið tvo karlmenn í Moskvu, Úkraínumann og Rússa. Þeir eru sagðir hafa átt að framkvæma aðgerð GUR. Er það rússneski fréttamiðillinn TASS sem greinir frá þessu.

Kænugarðsstjórn hefur ekki viljað tjá sig um ásakanirnar.