Tate McRae er hógvær stúlka.
Tate McRae er hógvær stúlka. — AFP/Michael loccisano

Frægð Kanadísku poppprinsessunni (hvað eru mörg pé í því?) Tate McRae, sem nýtur mikillar lýðhylli, er reglulega líkt við unga Britney Spears. Spurð út í þennan samanburð í breska blaðinu Independent fer hin 21 árs gamla McRae hjá sér. „Það er viðurkenning en um leið ógnvekjandi. Fullyrðingin er galin í ljósi þess að enginn stendur Britney Spears á sporði. Þetta er eins og að líkja einhverjum við Michael Jackson.“ Þrátt fyrir ungan aldur var McRae að senda frá sér sína þriðju breiðskífu, So Close to What, en sú fyrsta, I Used to Think I Could Fly, kom út 2022. McRae sló fyrst í gegn í sjónvarpsþættinum So You Think You Can Dance árið 2016, aðeins 13 ára.