Mér hefur alltaf þótt vænt um bækur og þær hafa fylgt mér síðan ég man eftir mér. Sem barn lék ég mér í bókasafnsleik og setti bókasafnskort aftast í hverja bók, stimplaði og merkti svo samviskulega við í hvert sinn sem bókin fór í útleigu … oftast til sjálfrar mín.

Benjamín dúfu fékk ég sem bókaormur Fellaskóla í Fellabæ og sú bók hefur alltaf verið í uppáhaldi. Bróðir minn ljónshjarta hafði svipuð áhrif á mig, ævintýraheimur vissulega, en samt líka dýpt, gleði, vinátta og sorg. Á unglingsárum voru það Dýragarðsbörnin, svo raunveruleg og erfið, svo sönn. Í menntaskóla las ég Híbýli vindanna og heillaðist af seiglu og sögu forfeðra okkar. Reisubók Guðríðar Símonardóttur er ein sú eftirminnilegasta sem ég hef lesið og örlagaríkt lífshlaupið hreint ótrúlegt, Karitas án titils, Ljósa og Náðarstund líka. Sögur um konur, eftir konur. Sögulegar skáldsögur tala sérstaklega til mín, byggðar á sögum

...