
Dansmyndin DuEls bar sigur úr býtum í mánaðarlegri keppni World Film Festivals í Cannes í flokknum besta dansmyndin sem og í flokknum besta kóreógrafían, sem eru verðlaun sem koma í hlut þeirra Damiens Jalets og Ernu Ómarsdóttur danshöfunda myndarinnar. Segir í tilkynningu að myndin, sem sé eftir hinn virta sænska leikstjóra Jonas Åkerlund, sé byggð á vel heppnaðri danssýningu Nagelhus Schia Productions í samstarfi við Íslenska dansflokkinn, sem sýnd var á Vigeland-safninu í Osló. „Með röð stuttra og áhrifamikilla verka, flutt í formi leiðsagnar um safnið, stuðlar dansinn að því að leysa úr læðingi þétta orku í hinum sígildu höggmyndum Vigelands.“ Myndin mun svo keppa um verðlaunin Grand Winner á árlegri verðlaunaafhendingu sem fram fer í Cannes í júní. Erna vinnur nú að nýju verki Hringir Orfeusar og annað slúður fyrir ÍD sem verður frumsýnt 28. mars í Borgarleikhúsinu.