
Háskóladagurinn er haldinn hátíðlegur í Reykjavík í dag, 1. mars, þar sem háskólarnir kynna námsframboð og starfsemi fyrir verðandi nemendum.
Í kjölfarið munu svo háskólar landsins ferðast á þrjá staði á landsbyggðinni að kynna námsframboð og námsleiðir. Þann 10. mars verður Háskóladagurinn á Höfn, 11. mars á Egilsstöðum og svo 12. mars á Akureyri. Kynningarnar í dag fara fram kl. 12-15 í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands í Stakkahlíð. Hinir háskólarnir verða með kynningar í þessum þremur skólum nema Háskólinn á Hólum verður einungis á Háskólatorgi HÍ og Háskólinn á Akureyri á Háskólatorginu og í HR.
Háskóladagurinn hefur fest sig í sessi á undanförnum árum, segir í fréttatilkynningu, en þar gefst gott tækifæri fyrir framhaldsskólanema og aðra áhugasama að kynna sér námsframboð háskólanna.