Sigurður V. Sigurjónsson fæddist í Reykjavík 12. október 1944. Hann lést á Landspítalanum 4. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Sigurjón Sigurðsson kaupmaður, f. 18. nóvember 1916, d. 20. febrúar 1998, og Sigrún Jónsdóttir kirkjulistakona, f. 19. ágúst 1921, d. 22. nóvember 2001. Þau skildu. Alsystkini Sigurðar eru Ólafur Þórir læknir í Svíþjóð, f. 25. febrúar 1941, og Guðfinna Svava kennari, f. 23. september 1942. Hálfsystkini Sigurðar, sammæðra, eru Sigurborg Ragnarsdóttir kennari í Svíþjóð, f. 30. ágúst 1948, og Emil Jón Ragnarsson læknir, f. 10. júlí 1960. Sigurður ólst upp hjá móðurömmu sinni Guðnýju Þorgerði Þorgilsdóttur, alltaf nefnd Þorgerður, f. á Svínafelli í Öræfum 30. apríl 1900, d. 31. ágúst 1994. Ólst hann upp hjá henni fyrst á Laugamýrarblettinum og síðar Rauðalæk 19 í Reykjavík.

Sigurður var kvæntur Kristjönu Ellertsdóttur skurðhjúkrunarfræðingi í Hafnarfirði, f. 31. desember 1948. Þau skildu. Foreldrar Kristjönu voru hjónin Ellert Kristjánsson verkstjóri og Jóhanna Erna Kristjánsdóttir húsfreyja. Þau bjuggu í Hafnarfirði.

Synir Sigurðar og Kristjönu eru: Ellert lögfræðingur í Hafnarfirði, f. 15. apríl 1971, og Þór Snær hönnuður og rafvirkjanemi í Hafnarfirði, f. 28. nóvember 1973. Þór Snær er giftur Jónu Kristínu Guttormsdóttur bókara, f. 6. janúar 1975, og er dóttir þeirra Kristjana Björg, f. 6. febrúar 2001, býr í Noregi.

Seinni sambýliskona Sigurðar var Lilja Ragnarsdóttir tannfræðingur á Álftanesi, f. 14. apríl 1963, og þau áttu soninn Sigurjón, bílstjóra í Garðabæ, f. 26. janúar 1993. Þau slitu samvistum.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964 og kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1971. Hlaut Sigurður lækningaleyfi 1977 og í Svíþjóð 1981 og sérfræðileyfi í geislagreiningu í báðum löndunum. Vann hann lengst af á Borgarspítalanum en fór til Norðurlandanna 1976 og vann þar eitt ár á röntgendeildinni á Ullevål Sykehus í Ósló í Noregi 1976-1977. Kenndi hann við Lundarháskóla í Svíþjóð og vann á Malmö Almänna Sjukhus til 1984. Hann kom heim til Íslands og vann sem sérfræðingur á röntgendeild Landspítalans frá 1984 til starfsloka en þar var hann mikið að sinna óskoðunum. Auk þess sinnti hann kennslu við Háskóla Íslands og Röntgentæknaskólann. Sigurður var gerður að heiðursfélaga Læknafélagsins árið 2018.

Útför Sigurðar hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku pabbi minn. Það var hræðilegt að sjá hvernig erfiður taugasjúkdómur rændi þig öllu. Þú misstir alla hreyfigetu, áttir mjög erfitt með tal og þurftir aðstoð við hversdagslegt líf á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þetta var ólíkt því sem áður var. Þú varst mjög hæfileikaríkur læknir og sérhæfðir þig í ómskoðunum, lengst af á Röntgendeild Landspítalans. Ég hef heyrt lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk hrósa þér hástert fyrir þína miklu hæfileika sem læknir en þú vannst m.a. í teymi með skurðlæknum spítalans við það að greina mein sem síðan voru skorin. Þessir hæfileikar þínir koma mér ekki á óvart. Þú varst ofurklár og einbeittur þegar þú hafðir áhuga á einhverju. Einnig listrænn, sem þú hefur eflaust erft frá móður þinni, og með gott rúmskyn en þessir hæfileikar þínir komu að góðum notum í þeirri veröld sem birtist á tölvuskjánum þegar þú ómskoðaðir sjúklingana þína.

Þú varst félagslyndur maður, með gott skopskyn og hafðir gaman af að hitta fólk, ræða málin og skemmta þér og öðrum. Það verður að segjast að þú varst ráðandi persónuleiki sem eflaust hefur stundum verið hamlandi fyrir þá sem umgengust þig. Ég þekki það en sætti mig oftast við það.

Þrátt fyrir félagslyndið gast þú dundað þér tímunum saman einn við lestur vísindabóka og vísindatímarita, þá aðallega á sviði jarðfræði, stjörnufræði og veðurfræði svo eitthvað sé nefnt. Eitt af verkefnum mínum sem krakki þegar við bjuggum í Svíþjóð var að klippa út fyrir þig veðurkortin í Sydsvenska Dagbladet sem þú safnaðir síðan saman með skipulögðum hætti. Þá sóttir þú fjölda námskeiða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, en þú varst mjög fróður maður þegar kom að þínum áhugamálum enda kynntir þú þér þau alveg til hlítar. Einnig hafðir þú mjög sterkar skoðanir og lést þær oft í ljós svo eftir var tekið. Varst óhræddur og álit annarra á þér skipti þig engu máli. Hefðir þú ekki áhuga á einhverju gafst þú hreinlega skít í það. Þannig varst þú.

Myndavélin fylgdi þér nánast hvert sem þú fórst en þú varst bæði duglegur og góður að taka myndir.

Þú ólst upp hjá Þorgerði ömmu þinni og Hafsteini móðurbróður þínum á góðu heimili. Amma gerði allt fyrir þig og sá ekki sólina fyrir þér. Sem krakki kom ég oft í heimsókn til ömmu á Rauðalækinn og þar var gott að vera. Góð amma, góður frændi, gott frændfólk í sama húsi, stutt í laugarnar og alltaf eitthvað að gera. Þorgerður amma kunni svo sannarlega að elda svokallað ömmulambalæri en steikingarlyktin fannst frá þriðju hæð og út á götu, svo mikill var hamagangurinn. Lambalæri var í miklu uppáhaldi hjá þér pabbi og okkur bræðrum, en þú varst mikill matmaður.

Sem krakki varst þú í sveit nokkur sumur hjá frændfólki þínu á Svínafelli í Öræfum og talaðir um þessa tíma með mikilli hlýju sem og um frændfólkið þitt þar. Þú varst mikill dýravinur og tengdist hundunum á bænum miklum vinaböndum. Kveðjustundirnar voru víst erfiðar á haustin.

Áður en þú veiktist varst þú duglegur að ferðast bæði erlendis og innanlands. Árið 2016 fórum við ásamt Sigurjóni bróður og mömmu í siglingu til Japans og Taívan svo einhver lönd séu nefnd. Einnig fórum við tveir ásamt Sigurjóni bróður í heimsókn til Þóris bróður þíns og fjölskyldu hans í Norrtälje í Svíþjóð sumarið 2019 og áttum þar góðar stundir í sænsku sveitinni í góðu veðri. Síðasta utanlandsferðin þín var til Færeyja árið 2022 þegar við tveir fórum ásamt mömmu á bílnum með Norrænu. Við nutum okkar í ferjunni og útsýnisins úr henni, ekki síst þegar eyjarnar birtust í fjarska, borðuðum góðan mat, gistum á góðu hóteli í Þórshöfn og keyrðum um allar eyjarnar á bílnum eins og herforingjar. Þetta var góð ferð en í henni komu veikindi þín berlega í ljós. Þú varst orðinn töluvert veikur. Einnig fórum við mamma með þér til Vestfjarða eitt sumarið og annað árið skoðuðum við Austfirðina og enduðum á Akureyri. Þetta voru mjög ánægjulegar ferðir. Þú naust þín afslappaður í framsætinu og dáðist að útsýninu, við spjölluðum saman og höfðum það gott. Ég mun minnast allra þessara ferða okkar með hlýju, þetta eru góðar minningar.

Eftir að þú veiktist og meðan heilsa þín leyfði hafði ég það sem vana að bjóða þér reglulega í dagsbíltúra um landið okkar fagra. Aðallega keyrðum við um Reykjanes og Suðurland eða tókum stuttan bæjarrúnt í Reykjavík eða Hafnarfjörð. Ég sá það á þér að þessar ferðir veittu þér augljóslega ánægju og tilbreytingu í lífinu en hún er okkur lífsnauðsynleg.

Að lokum vil ég þakka móður minni fyrir að vera þér mjög góð, sérstaklega eftir að þú veiktist, en hún bauð þér alltaf í mat heim til sín á hátíðardögum. Henni var mjög umhugað um þig. Hún stóð þér við hlið ásamt okkur bræðrum og Emil bróður þínum að kvöldi 4. febrúar síðastliðins þegar þú kvaddir þennan heim á Borgarspítalanum, gamla vinnustaðnum þínum. Án mömmu hefði þetta allt orðið miklu erfiðara.

Elsku pabbi minn. Ég kveð þig með söknuði í hjarta og mun alltaf minnast þín með hlýju, virðingu og stolti. Það er erfitt að kveðja sína nánustu en ég hugga mig samt við það á þessari stundu að núna ert þú laus úr viðjum sjúkdóms sem hafði klófest þig og búinn að ná heilsu á ný. Búinn að hitta Þorgerði ömmu og Hafstein frænda og vonandi fær Hafsteinn loksins að klára söguna sem hann náði aldrei að segja þér að fullu í fjölskylduboðunum í gamla daga, en þannig var það bara í þessari fjölskyldu.

Þinn sonur,

Ellert.


Ellert Sigurðsson