
Guðrún Hafsteinsdóttir bar sigurorð af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í æsispennandi formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í gær.
Sigurinn hefði vart getað verið naumari, en Guðrún hlaut 931 atkvæði eða 50,11%, 19 atkvæðum fleiri en Áslaug Arna, sem alls fékk 912 atkvæði eða 49,09% gildra atkvæða.
Jens Garðar Helgason var hins vegar kjörinn varaformaður flokksins með afdráttarlausari niðurstöðu, en hann hlaut 928 atkvæði af 1.750 eða 53,2% gildra atkvæða.
Þá var Vilhjálmur Árnason endurkjörinn ritari flokksins með 573 atkvæðum eða 74,8% atkvæða.
Í þakkarræðu sinni sagðist Guðrún ekki hafa farið í pólitík af persónulegum metnaði, heldur af hugsjón.
„Ég brenn fyrir þjóð mína og landið mitt. Þess vegna er þetta ekki sigur einstaklingsins, þetta er sigur okkar allra.“
Guðrún þakkaði Áslaugu fyrir drengilega baráttu og sagði ómetanlegt að eiga slíkan bandamann.
„Við
...