— AFP/Mads Schmidt Rasmussen

Hópur mótmælenda, þ. á m. nokkrir kjörnir fulltrúar, gekk um götur Nuuk á Grænlandi sl. fimmtudag og vakti athygli á meintum fordómum Dana í garð Grænlendinga og mismunun. Var m.a. Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, í hópi mótmælenda. Yfirskrift mótmælanna var skýr: Danmörk, hér er línan dregin.

Mótmælin vöktu athygli fjölmiðla á Grænlandi og í Danmörku. Flestir í hópnum báru skilti eða borða með áletrunum á borð við: Líf inúíta skipta máli; Hættið að mismuna; Börnin okkar fylgjast með – fordómar smita og Við munum aldrei þagna.

Danska ríkisútvarpið DR ræddi við einn mótmælendanna. Sagði hann á allra vitorði að fordómar ríktu í garð Grænlendinga. Og að inúítar krefðust réttlátrar stöðu.