
Sjór gekk víða á land í gær og olli tjóni. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti þó nokkrum útköllum, aðallega í vesturhluta borgarinnar, og kom ferðamönnum til bjargar sem voru hætt komnir á Eiðisgranda. Rétt sluppu þeir við að fá yfir sig stóra öldu.
„Varðstjórinn rétt náði að kalla fólkið niður og í burtu. Þá kom svaka alda yfir með grjóti og öðru. Þetta var stórhættulegt, en fólkið bjargaðist,“ segir Stefán Már Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Þá var björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði kölluð út vegna báta sem voru að losna í Sandgerðishöfn. Sjö manns frá Sigurvon ásamt áhöfn af björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein stóðu í ströngu við að tryggja fjóra báta sem ýmist höfðu losnað eða menn höfðu áhyggjur af að væru að losna.
Lætin voru mikil en einn báturinn kastaðist upp á bryggjuna og stóð þar fastur í smástund. Verkefnum lauk um tíuleytið í gærkvöldi.