— Morgunblaðið/Hákon

Sökum þess hve margir biðu eftir að komast í flug til Reykjavíkur frá Akureyri vegna niðurfelldra flugferða í gær og fyrradag greip flugfélagið Icelandair til þess ráðs að flytja farþega í þotu sem vanalega er nýtt til millilandaflugs síðdegis í gær.

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við Morgunblaðið að lítið hafi verið flogið fyrri partinn í gær og í fyrradag þar sem veðrið hafði verið óhagfellt fyrir innanlandsflug.

„Eins og við höfum áður gert þá var notast við þotu í þetta verkefni. Um er að ræða 183 sæta Boeing 757-þotu sem vanalega er notuð í millilandaflug og það var þétt setið,“ segir Guðni.