Lögreglan í Mannheim staðfesti í gær að tveir hefðu látið lífið og tíu særst þegar svartri bifreið var ekið inn í mannfjölda á götumarkaði í borginni. Fimm af þeim særðu voru sagðir enn í lífshættu í gærkvöldi

Mannheim Lögreglumenn rannsaka hér vettvang árásarinnar í Mannheim, þar sem bíl var ekið á ofsahraða inn í mannfjölda á götumarkaði.
— AFP/Thomas Lohnes
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Lögreglan í Mannheim staðfesti í gær að tveir hefðu látið lífið og tíu særst þegar svartri bifreið var ekið inn í mannfjölda á götumarkaði í borginni. Fimm af þeim særðu voru sagðir enn í lífshættu í gærkvöldi.
Atvikið átti sér stað um hádegisbilið að staðartíma, en götumarkaðurinn var hluti af kjötkveðjuhátíð borgarinnar og var þar múgur og margmenni. Sjónarvottar sögðu að aðkoma á vettvangi hefði verið líkust því að sprenging hefði orðið á markaðnum. Fór bráðadeild háskólasjúkrahúss borgarinnar á neyðarstig vegna atviksins.
Ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn á vettvangi, en lögreglan sagði í gær að hann væri fertugur Þjóðverji frá sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz, en Mannheim er í Baden-Württemberg.
...