Tveir menn fóru í sjóinn í gærmorgun við höfnina á Akranesi þegar stór alda greip þá ásamt tveimur bílum og hreif í sjóinn. Slökkvilið Akraness náði mönnunum tveimur úr sjónum og voru þeir báðir fluttir til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Annar maðurinn var svo fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík. Var hann inni í annarri bifreiðinni þegar aldan greip hana. Hinn maðurinn var nýstiginn úr sama bíl þegar atvikið varð.
Kafarar hugðust reyna að ná bílunum tveimur upp úr Akraneshöfn í gærkvöldi en hætt var við aðgerðirnar um sjöleytið vegna veðurs. Stefnt er að því að reyna aftur í dag ef aðstæður leyfa en mikill sjógangur hefur verið síðustu daga.