
Jóna Berg Garðarsdóttir fæddist í Skeggjabrekku í Ólafsfirði 24. október 1943. Hún lést á lyflækningadeild SAK 24. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Rósa Guðlaug Jónsdóttir, f. 24. febrúar 1919, d. 17. júní 1986, og Garðar Baldvinsson, f. 3. júlí 1915, d. 3. apríl 1960. Stjúpi hennar og seinni maður Rósu var Óskar Karlsson frá Garði í sömu sveit, f. 4. september 1915, d. 31. ágúst 1998. Eftir að Rósa og Óskar tóku saman, þegar Jóna Berg var u.þ.b. 10 ára, fluttu þær mæðgur til hans í Garð.
Systkini Jónu, öll samfeðra, eru: Garðar, Guðrún Fríður, Tómas Þórir (látinn), Þórunn Magdalena (látin), Ingólfur Teitur og Baldvin (látinn).
Þann 24. október 1964 gekk hún að eiga Sigurð Jón Jóhannsson frá Hlíð í sömu sveit, f. 8. september 1932, d. 27. september 2009. Foreldrar hans voru María Sigurðardóttir og Jóhann Jónsson.
Börn Jónu og Sigurðar eru: 1) Rósa María, f. 24. febrúar 1966. Unnusti hennar er Ólafur Jónsson. Synir hennar eru Sigurður Helgi, f. 1982, Jóhann Alexander, f. 1988, og Halldór, f. 1990. 2) Friðjón, f. 11. maí 1967. Eiginkona hans er Lára Steina Konráðsdóttir. Þeirra synir eru Brynjar Hrafn Hólm Arnarsson, f. 1996, Konráð Ari, f. 2006, og Birkir Orri, f. 2007. 3) Gunnlaug Ósk, f. 30. júní 1969. Unnusti hennar er Hjörleifur Hjálmarsson. Hennar börn eru Jóna Bergrós, f. 1991, Guðmundur Emil, f. 1993, Sóley Sandra, f. 2004, og Lilja Lind, f. 2007. 4) Sigurbjörg Helga, f. 1974. 5) Hanna Gerður, f. 1981. Langömmubörnin eru orðin níu.
16 ára gömul fór Jóna Berg fyrst suður til að vinna, eins og margt ungt fólk af hennar kynslóð. Nokkra vetur bjó hún hjá ættingjum, bæði í Keflavík og Reykjavík, og síðar leigði hún þar með vinafólki úr Ólafsfirði. Vann hún m.a. á veitingastað í Keflavík, í verslun Silla & Valda á Laugavegi og í Vinnufatagerðinni. Árið eftir að þau Sigurður giftu sig tóku þau við búi í Skeggjabrekku af móðurbræðrum hennar. Þar bjuggu þau til haustsins 1970, þegar kviknaði í húsinu og það skemmdist allnokkuð. Fluttu þau þá til Grindavíkur og voru þar í tæp fjögur ár. Þá kallaði Norðurlandið þau aftur til sín og þau hófu búskap á ný, en nú í Svarfaðardal. Þegar heilsu Sigurðar tók að hraka fluttu þau til Dalvíkur og þar bjó Jóna til ársins 2015. Vann hún þar lengst af í Kaupfélaginu og á dvalarheimilinu Dalbæ. Árið 2015 flutti hún síðan til Akureyrar. Nokkrum árum eftir að hún kom til Akureyrar kynntist hún Sigurgeiri Ísakssyni og hóf með honum búskap og bjó hún með honum til dauðadags.
Útför hennar verður gerð frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 7. mars 2025, klukkan 13.
Elskulega tengdamóðir mín Jóna Berg Garðarsdóttir er farin til Sigga síns í sumarlandið. Ég kynntist Jónu þegar ég fór að vera með syni hennar fyrir 21 ári og þvílík guðslukka það var að eignast hana sem tengdamóður. Jóna, Siggi tengdapabbi og fjölskyldan tóku mér og Brynjari syni mínum, sem þá var átta ára, ákaflega vel og tóku þau honum strax sem einu af sínum ömmu- og afabörnum og nú síðustu ár tók Jóna bæði stjúpbörnum og litlu nýfæddu stelpunni hans alltaf sem sínum langömmubörnum og var þeim og okkur alltaf svo góð.
Við Jóna urðum fljótt mjög góðar vinkonur og sagðist hún hafa frekar verið
að eignast fimmtu dótturina en tengdadóttur, sem mér þótti svo óendanlega
vænt um að heyra. Ég gat leitað til Jónu minnar með allt, hvort sem það var
hjálp við hekl og prjónaskap, bakstur, eldamennsku, pössun eða bara
sem
trúnaðarvinar. Hún var alltaf til staðar. Við hjónin vorum svo heppin að
búa í næsta húsi við þau á Dalvík og síðar bara Jónu eftir að Siggi féll
frá. Strákarnir okkar elskuðu að geta hlaupið yfir til ömmu í pönnsur eða
lummur, sem var sko ekki sjaldan, eða bara til að dunda og brasa hjá
henni.
Eftir að við hjónin fluttum til Akureyrar kom Jóna fljótt á eftir okkur enda öll börnin hennar komin þangað svo það lá beinast við. Alltaf var jafn gott að koma til hennar í kaffi þó að vegalengdin væri orðin aðeins meiri en næsta hús. Það var líka oft líf og fjör þar því gestagangurinn var alltaf mikill hjá henni enda þótti öllum gott og gaman að koma til Jónu. Alltaf til kaffi og eitthvert gúmmelaði með því sem hún hafði verið nýbúin að baka eða átti í frystinum. Þú fórst aldrei svöng frá henni og oftar en ekki með eitthvað með þér heim til þeirra sem ekki komu með í kaffið.
Nokkrum árum eftir að hún flutti í bæinn var Jóna svo heppin að kynnast
yndislegum manni og kórfélaga, Sigurgeiri Ísakssyni. Vinátta þeirra varð
fljótt mjög mikil og þróaðist í fallegt samband. Jóna varði mörgum stundum
hjá honum og var fljótlega alveg komin til hans þótt hún ætti áfram sína
íbúð í
Hagahverfinu. En þar með bjuggum við aftur í næsta húsi við hana en nú í
Naustahverfinu sem var alveg frábært. Svo æðislegt að geta droppað aftur
yfir í smá kaffi og spjall en nú til þeirra. Jóna og Sigurgeir áttu
yndisleg ár saman og ferðuðust mikið og gerðu margt saman því þau áttu
mikið af
sameiginlegum áhugamálum og vinum og stórar fjölskyldur sem gjarnan
hópuðust öll til þeirra í matar- eða kaffiboð og oft mikil þröng á þingi en
gekk alltaf upp. Það var afskaplega gaman og guðslukka að sjá og fylgjast
með Jónu finna ástina á ný með þessum dásemdarmanni.
En lífið er víst alls konar og ekki alltaf sanngjarnt, en fyrir rúmu ári
var Jóna greind með MND-taugasjúkdóminn. Sjúkdómurinn var aðallega í
kyngingar- og talfærum hjá henni þó að hans yrði líka vart í útlimum. Talið
fór fljótt að versna þannig að hún gat ekki lengur orðið sungið með í kór
eldri borgara sem henni fannst svo gaman. Í haust átti hún orðið enn
erfiðara með að tyggja og kyngja mat, og var hún alveg hætt að getað borðað
nema í gegnum sondu. Hún var líka orðin máttlausari í höndum og fótum og
orkan orðin miklu minni. Hún var búin að missa allar fínhreyfingar og átti
orðið erfiðara með að prjóna og hekla sem hún gerði mikið af en hún dó ekki
ráðalaus heldur keypti bara stóra heklunál og þykkt garn og hóf að hekla
körfur handa nánast öllum í fjölskyldunni.
Það lá beinast við þar sem ég var ekki í vinnu að ég fylgdi Jónu í nokkrar
læknaheimsóknir hennar í eftirlit til taugalæknisins og MND-teymisins í
Reykjavík, en teymið reyndist okkur ómetanlegt í gegnum þetta ferli og eiga
þau miklar þakkir skilið fyrir allt. Þetta var yndislegur tími í þessum
ferðum okkar þó að tilefnið væri auðvitað ekki skemmtilegt. Við áttum
margar gæðastundir og spjall í okkar bílferðum og mikið hlegið og fíflast
enda Jóna mikill húmoristi, sem fylgdi henni alveg til dauðadags.
Þegar ég fór með Jónu upp á SAK þremur vikum fyrir andlát hennar bjóst ég
ekki við því að hún færi ekki heim aftur eftir það. Það dró fljótt af henni
eftir komuna þangað og á endanum var talið alveg horfið. En það stoppaði
hana auðvitað ekki. Hún skrifaði allt sem hún vildi sagt hafa í bók sem hún
vildi síðan að við ættum til minningar um hana og er þessi bók algjör
gullmoli fyrir okkur að lesa. Eins passaði hún upp á síðustu dagana sína að
allir sem væru búnir að eiga eða ættu afmæli fljótlega fengju
afmælisgjafirnar sínar því henni var alltaf svo umhugað um alla í kringum
sig enda ekki ein slæm beinflís til í henni.
Elsku yndislegu og fallegu tengdamóður minni þakka ég fyrir allt. Líf mitt
hefur verið svo miklu ríkara með hana í því. Elsku Sigurgeir, Friðjón minn,
mágkonur mínar, svilar og stórfjölskylda Jónu og Sigurgeirs. Okkar missir
er mikill en minning um yndislega, hjartahlýja og góða konu situr eftir og
yljar okkur á erfiðum stundum.
Lára Steina Konráðsdóttir.