Rögnvar Ragnarsson fæddist á Eskifirði 9. maí 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð Eskifirði 28. febrúar 2025.


Foreldrar hans voru Ragnar Sigþór Sigtryggsson, f. 28. nóvember 1904, d. 8. september 1971, og Guðrún Hallgrímsdóttir, f. 20. apríl 1901, d. 1 júlí 1969. Systkini: Þórhalla, f. 11 maí 1928, d. 17 apríl 2020, Erling Dagfinn, f. 22. október 1930, d. 16. október 1996.

Rögnvar var kvæntur Ernu Sigríði Helgadóttur frá Eskifirði, f. 23. febrúar 1938, d. 14. apríl 2022. Börn þeirra eru: Kolbrún, f. 1952, Grétar, f. 1957, og Guðrún, f. 1960.

Rögnvar starfaði lengst af sem verkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar en fór ungur að stunda sjómennsku og var á vertíðum í Sandgerði og Vestmannaeyjum.

Útför fór fram í kyrrþey.

Ég er fyrsta barnabarn ömmu og afa og við bjuggum hjá þeim þegar ég fæddist og ég var svo mikið meira en velkomin í þeirra líf, svo bjuggum við á neðri hæðinni hjá þeim fyrstu árin mín og það má eiginlega segja að ég hafi átt 4 foreldra á þeim árum, enda mitt fyrsta verk alla morgna að heimta að fara upp til ömmu og afa því þar var orðið nei ekki notað og þjónustan í hæsta gæðaflokki.

Afi var besti maður sem ég hef kynnst og ég var mikil afastelpa, hann gaf sér alltaf tíma til að leika við mig þó hann væri að koma dauðþreyttur heim úr vinnu, hann kenndi mér líka fullt af spilum og leikjum og við áttum svo ótal góðar stundir saman. Eftir að við fluttum svo í annað hús í bænum þá átti ég til að strjúka að heiman nokkrum sinnum til ömmu og afa, þó svo ég ætti gott heimili og foreldra þá var bara svo yndislegt að vera þar.
Ég bjó hjá þeim allavega einn vetur þegar mamma fór suður til náms, þá vakti afi mig í skólann alla morgna og þegar ég kom fram í eldhús var brauðið alltaf að skjótast upp úr brauðristinni sem hann svo smurði ofan í mig og var búinn að búa til nesquik-kakó líka, þennan vetur var ég að byrja að læra algebru og svona í stærðfræði sem ég náði illa tökum á en afi gat setið með mér tímunum saman að hjálpa mér að læra, sem ég held að ekki margir hefðu haft þolinmæði í, einnig var ég hjá þeim stundum á sumrin og ég man að þegar ég var byrjuð að vinna í fiski sem var frekar snemma þurfti ég stundum að mæta kl. 6 og það var sama sagan, þá vaknaði hann á undan til að vekja mig og græja handa mér morgunmat, það var oft fiskur í matinn hjá ömmu og afa og afi var snillingur í að stappa fisk og stappaði hann alltaf fyrir mig og ég stappa enn í dag allan fisk og hugsa alltaf hvað það væri nú gott að hafa afa í að stappa því hann einhvern veginn stappaði hann betur en flestir, svo vann ég hjá afa í saltfisknum mikið á sumrin og það var alltaf gaman í vinnunni, þá spiluðum við alltaf saman í kaffitímum.

Afi var gríðarlega duglegur maður og garðurinn hjá þeim var t.d. alltaf óaðfinnanlegur þar sem hann var svo duglegur að snyrta og dytta að öllu, húsið þeirra var alltaf mikið jólaskreytt að utan og ef afi sá að ein pera var farin var farið upp í stiga til að skipta um, hann meira að segja ætlaði sér að brölta í það þegar hann var kominn á efri ár og það þurfi smá að stoppa hann af í því þá, og hann fór að hringja í pabba eða bræður mína til að fá aðstoð.

Ég gisti oft hjá ömmu og afa þegar ég kom austur eftir að ég flutti suður með Grétar son minn með mér og það var sama sagan með morgunmatinn og afi alltaf að spyrja hvort hann ætti nú ekki að smyrja eitthvað handa okkur eða grilla samlokur. Sonur minn fann líka alveg sömu hlýju og góðmennsku þar á bæ og ég upplifði sem barn svo við eigum bæði yndislegar æskuminningar af Steinholtsveginum.
Það var alltaf stutt í húmorinn hjá afa og gaman að tala við hann, ég hringdi reglulega í hann síðustu ár og það var alltaf gaman að spjalla við hann og hann endaði öll símtöl á að þakka mér fyrir að hringja og sagði svo alltaf þú ert svo dugleg og góð Erna mín, þannig að ég var alltaf með gott í hjartanu eftir símtölin okkar.

Nú ertu farinn í sumarlandið elsku afi minn, til ömmu sem þú saknaðir svo sárt, mikið er ég þakklát fyrir að ég og Grétar náðum að koma austur að kveðja þig um daginn, og mikið ógurlega var það erfitt líka, ég mun alltaf sakna þín elsku afi minn og ég geymi ótal minningar um þig og allar svo góðar.

Erna Grétarsdóttir.