
Sýningin Samtal við Sigfús – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar stendur yfir í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Á sýningunni er úrval samtalsverka Sigfúsar og Einars Fals Ingólfssonar ljósmyndara, að hluta ný prent eftir glerplötum Sigfúsar en einnig valin frumprent hans frá 19. öld, þegar myndirnar voru teknar. Um er að ræða fágæta dýrgripi í eigu Þjóðminjasafns sem afar sjaldan sjást.
„Ég vann markvisst að þessu verkefni í fjögur ár með öðru,“ segir Einar Falur. „Þetta er þriðja verkefnið þar sem ég fer í fótspor listamanns úr fortíðinni. Fyrst fór ég í fótspor W.G. Collingwood og sú sýning var opnuð á þessum sama stað á Listahátíð árið 2010 og í framhaldinu víðar, í söfnum hér heima og erlendis. Collingwood gerði um 300 vatnslitamyndir á Íslandi árið 1897. Ég valdi úrval þeirra og notaði sem minn fararstjóra í ferðalagi um landið þar sem ég myndaði á sömu
...