
Ída Margrét Stefánsdóttir var markahæst hjá Gróttu þegar liðið tók á móti Stjörnunni í 19. umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta á Seltjarnarnesi í gær. Leiknum lauk með öruggum sigri Gróttu, 30:21, en Ída Margrét gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk í leiknum. Seltirningar voru sterkari aðilinn allan tímann og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 15:11. Þetta var fyrsti sigur Gróttu í deildinni síðan 9. nóvember en liðið er áfram í áttunda og neðsta sætinu með 8 stig, stigi minna en ÍBV en ÍBV á leik til góða á Gróttu og mætir Selfossi í Eyjum í dag. Stjarnan er í sjötta sætinu með 10 stig og hefur tapað sjö leikjum í röð en Stjarnan, ÍBV og Grótta geta öll fallið þegar tveimur umferðum er ólokið.