Alkóhólismi er ekki einstaklingssjúkdómur heldur fjölskyldusjúkdómur, sem sundrar öllu sem hann kemst í snertingu við.
Gunnar Örn Vopnfjörð Þorsteinsson
Gunnar Örn Vopnfjörð Þorsteinsson

Gunnar Örn Vopnfjörð Þorsteinsson

Þetta byrjaði allt sem einhver skemmtun. Þau léttu okkur lundina, tóku frá okkur kvíðann, losuðu um hömlur, gáfu okkur hugrekkið til þess að blanda geði og síðast en ekki síst fannst okkur við loksins tilheyra. Gefandi, ekki satt? Það fannst okkur líka … til að byrja með.

Þetta var gaman, eitthvað sem við notuðum af og til í góðra vina hópi til þess að lífga upp á hinn gráa veruleika. Partíin voru ótalmörg þar sem oftast var mikil gleði og skemmtun, og þar þorði maður loksins að vera maður sjálfur.

En með tíð og tíma tók að halla undan fæti. Hægt og rólega misstum við stjórnina, þó svo að við værum blind fyrir því og vildum aldrei viðurkenna það. Hugbreytandi efni hættu að lokum að vera okkur til skemmtunar, þau urðu að lokum okkar leið til að flýja allt það sem var að plaga okkur og á endanum var þetta orðið okkur nauðsyn, þótt það væri eingöngu til að geta opnað augun og mætt deginum fram undan.

Sjúkdómurinn alkóhólismi fer ekki í manngreinarálit. Það skiptir engu hvort þú ert stór eða lítill, feitur eða grannur, gamall eða ungur, trans eða sís. Við getum öll átt á hættu að þróa með okkur þennan sjúkdóm við það eitt að neyta þessara efna, hvort sem um ræðir alkóhól eða önnur efni. Vissulega geta margir þættir haft áhrif á það hvort við þróum með okkur sjúkdóminn eður ei. Góðar uppeldisaðstæður, góður stuðningur, margir og góðir vinir, allt getur þetta vegið upp á móti því að við þróum með okkur alkóhólisma en þetta er samt ekki trygging fyrir því að við sleppum. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum saman, ríki og menn, við að aðstoða einstaklinga sem hafa misstigið sig við að ná aftur fótfestu í lífinu svo að þeir geti hætt að vera sjálfum sér og öðrum til skaða.

Enginn ætlar sér að verða alkóhólisti, að minnsta kosti enginn sem ég þekki eða hef heyrt um. Hvern langar til að þrífast í heimi ofbeldis, vanlíðanar, sektarkenndar og/eða tilgangsleysis? Það var allavega ekki mín ætlun, en svo fór sem fór. Endalausar áhyggjur og andvökunætur okkar nánustu vegna þess að þau hreinlega vissu ekki hvort nú kæmi símtalið sem tilkynnti þeim fráfall okkar. Hvar erum við núna? Hvað erum við að gera til að eiga fyrir næsta skammti? Erum við á leiðinni í fangelsi? Þetta eru eingöngu örfá dæmi um það sem flýgur í gegnum hugann á okkar fólki. Það er ljóst að sjúkdómurinn hefur ekki eingöngu áhrif á einstaklinginn sjálfan heldur líka aðstandendur, þess vegna er ekki síður mikilvægt að grípa þá og veita þeim þá hjálp og stuðning sem þeir þurfa á að halda. Alkóhólismi er nefnilega ekki einstaklingssjúkdómur heldur fjölskyldusjúkdómur. Alkóhólisminn sundrar öllu sem hann kemst í snertingu við. Hann tekur allt frá einstaklingunum; vinnuna, vinina, fjölskylduna, líkamlega heilsuna sem og geðheilsuna, skynsemina og þegar yfir lýkur tekur hann líf einstaklingsins og eftir situr djúpt sár meðal aðstandenda og samfélagsins í heild. Aðstandendur velta fyrir sér hvað þeir gerðu rangt, hvað þeir hefðu getað gert betur. Elskuðu þeir engilinn sinn ekki nóg? Á meðan samfélagið missti fallega sál sem átti jafnvel alla framtíðina fyrir sér og hefði getað látið gott af sér leiða.

Með samstöðu og náungakærleik að leiðarljósi getum við bjargað svo mörgum frá þessu helvíti sem alkóhólisminn er og reynt að grípa þessa einstaklinga áður en það er um seinan. Því að eitt hef ég lært í gegnum árin; það er enginn alveg vonlaus, það er enginn sem á ekki séns, það er enginn búið spil fyrr en á kistubotninn er komið.

Það er margt sem við sem samfélag getum gert betur og ættum að gera betur. Við skulum nýta þessa stund til að minnast þeirra sem látist hafa úr þessum sjúkdómi á einn eða annan hátt og láta þá vera þær vörður á okkar þroskaleið sem vísa okkur veginn í baráttunni við sjúkdóminn sem öllu og öllum eyðir, svo að við þurfum ekki að missa fleiri í kringum okkur úr honum.

Að lokum vil ég vekja athygli á Minningardeginum sem við í Samtökum aðstandenda og fíknisjúkra stöndum að. Minningardagurinn verður haldinn í dag, miðvikudaginn 26. mars, klukkan 18 í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þar getum við komið saman og átt hlýlega stund og minnst þeirra sem látist hafa úr sjúkdómnum.

Höfundur er formaður Samtaka aðstandenda og fíknisjúkra í Hafnarfirði.