
Stefán Teitur Þórðarson og liðsfélagar hans í enska B-deildarfélaginu Preston eru úr leik í ensku bikarkeppninni í fótbolta eftir tap gegn Aston Villa í átta liða úrslitum keppninnar í Preston í gær.
Leiknum lauk með öruggum sigri Aston Villa, 3:0, þar sem Marcus Rashford reyndist Preston-mönnum erfiður. Rashford skoraði tvö fyrstu mörkin, á 58. mínútu og svo aftur fimm mínútum síðar úr vítaspyrnu, áður en Jacob Ramsey innsiglaði sigur Aston Villa á 71. mínútu. Stefán Teitur var í byrjunarliði Preston í leiknum en var skipt af velli á 83. mínútu.
Omar Marmoush reyndist hetja Manchester City þegar liðið heimsótti Bournemouth en hann tryggði City 2:1-sigur með marki á 63. mínútu. Evanilson kom Bournemouth yfir á 21. mínútu en Erling Haaland jafnaði metin fyrir City á 49. mínútu.
...