
Aðalheiður Þórormsdóttir fæddist 5. mars 1927. Hún lést 17. febrúar 2025 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.
Foreldrar hennar voru Þórormur Stefánsson, f. 23. apríl 1894, d. 5. maí 1981, og Stefanía Indriðadóttir, f. 12. maí 1898, d. 7. nóvember 1959.
Aðalheiður giftist Sigurði Þ. Ágústssyni, f. 17. desember 1928, d. 29.
nóvember 2012, þann 8. apríl 1951. Börn þeirra eru:
1) Stefán Þór, f. 1951, kvæntur Lilju Guðmundsdóttur, f. 1948, þau eiga saman tvær dætur. Lilja átti dóttur frá fyrra hjónabandi: a) Hulda Rós Hilmarsdóttir, gift Kristjáni Jónssyni og eiga þau tvö börn, Jón Hilmar og Lilju Dís. Jón Hilmar er í sambúð með Karin og eiga þau einn son. Lilja Dís er í sambúð með Einari og á hann eina dóttur. b) Aðalheiður, gift Helga Jökli Hilmarssyni og eiga þau tvö börn, Svönu Rós og Hilmar. Svana Rós er í sambúð með Ými. c) Margrét, sambýlismaður Stefán G. Stefánsson. Margrét var áður í sambúð með Kristjáni Þórissyni og eiga þau tvær dætur, Thelmu Ósk og Heiðrúnu Líf. Stefán átti fyrir tvö börn. Thelma Ósk er í sambúð með Snæbirni og á Thelma fimm börn. Heiðrún Líf er í sambúð með Theódór og eiga þau einn son.
2) Ágúst Már, f. 1955, giftur Svövu Ásdís Steingrímsdóttur, f. 1953, þau eiga þrjár dætur: a) Agnes, gift Fannari Pálsyni og eiga þau tvo syni, Dag og Sindra. b) Unnur Dóra, sambýlismaður hennar er Karl Óttar Erlendsson og eiga þau þrjú börn, Ægi, Hrefnu og Kára. c) Helga Björg, sambýlismaður hennar er Sveinn Þorgeirsson og eiga þau tvær dætur, Viktoríu Björgu og Heklu Björgu.
3) Jóna Björg, f. 1957, gift Kristjáni S. Kristjánssyni, f. 1955, og eiga þau þrjú börn: a) Kristín Birna, gift Philip Roughton eiga þau eina dóttur, Karólínu Björgu. Kristín Birna á dóttur fyrir hjónaband, Heklu Baldursdóttur, og er hún í sambúð með Tiego Martins og eiga þau tvo syni. b) Sigurður Pétur, er í sambúð með Katrínu Pétursdóttur og eiga þau einn son Þórorm Frosta. Dóttir Sigurðar úr fyrra sambandi er Hera Mist. c) Ólafur Birgir.
4) Þröstur, f. 1962, giftur Sigfríð Sigurðardóttur, f. 1963, og eiga þau fjögur börn: a) Sigurður Hjörtur, í sambúð með Þorbjörgu Jóhannsdóttur. Börn Sigurðar og Heiðrúnar Villu Ingudóttur eru Sóley Inga og Þröstur Leó. b) Aðalheiður Rán Þrastardóttir er í sambúð með Péter Szklenár. Börn þeirra eru Tara, Eva Júlía og Erik Stefán. c) Sigrún Stella, í sambúð með Andrew Richard Wall. Sonur þeirra er Axel Thor. Úr fyrra hjónabandi á Sigrún Stella þrjá syni, Dag Mána, Nökkva Frey og Andra Þór Viðarssyni. d) Stefán Tumi, giftur Guðrúnu Jónsdóttur. Börn þeirra eru Mía Sól, Erik Snorri og Eyrún Emma.
5) Sigurður, f. 1965, giftur Láru Bæhrenz Þórðardóttur, f. 1971, og eiga þau tvö börn: a) Blómey. b) Þórður. Börn Sigurðar úr fyrra sambandi með Hrafnhildi Blöndal Hrafnkelsdóttur eru: a) Daníel Þröstur, giftur Ngö Nhung og eiga þau eina dóttur, Rósu. b) Áróra Sif.
Barn Láru úr fyrra sambandi er Karólína.
Aðalheiður var aðallega húsmóðir en vann líka við skúringar í verslunum og eldhússtörf hjá VÍS utan heimilis í nokkur ár.
Útför hennar fer fram í Grensáskirkju í dag, 2. apríl 2025, klukkan 13.
Mamma fór ung sem kaupakona norður á Bakka í Kelduhverfi á Melrakkasléttu, það var mikið ferðalag á þessum tíma. Síðar varð hún kaupakona í Geirakoti í Flóanum. Þar kynntist hún pabba. Hann hafði farið með félögum sínum á ball í sveitinni og bauð henni í dans. Það átti eftir að vera fyrsti dansinn af mörgum. Eftir dansinn settust þau út í móa og hann gaf henni vínber, sem voru henni þá ný lífsreynsla.
Mamma og pabbi eignuðust íbúð á Háaleitisbrautinni og fluttu inn í hana rétt fokhelda árið 1964. Það var oft mikið líf á Háaleitisbrautinni. Gestagangur að austan og samgangur mikill í stigaganginum. Þarna myndaðist skemmtilegt líf, þar sem allir þekktu alla. Þarna var Unnur og Sigurhjörtur á fyrstu, Þóra og Jón þar á móti, Dísa og Bragi í kjallaranum. Pétur Trausta augnlæknir á móti okkur og Georg verðlagsstjóri á þriðju. Mamma passaði fyrir Georg og fleiri í húsinu. Svo var gengið á milli með smjörpappírinn með nýjasta sniðinu af pilsi eða kjól úr Vogue-blaðinu, beint frá París. Á Háaleitisbrautinni myndaðist vinátta fullorðinna og barna fyrir lífstíð.
Árið 2000 minnkuðu þau við sig og fluttu á Laugarnesveg í splunkunýja íbúð. Þar skapaðist sú hefð að við systkinin komum til þeirra einu sinni í viku í hádegismat. Mamma eldaði þar fyrir okkur þar til hún varð 92 ára. Þetta breyttist þegar covid skall á. Þegar pabbi dó 2012 fór hún að hugsa sér til hreyfings og fékk eftir nokkra bið íbúð í Mörkinni árið 2016 og leið henni vel þar.
Mamma var líka einstök amma. Hún elskaði börn og þau elskuðu hana. Þetta einstaka rólyndi og hlýi faðmur sem var svo gott að koma í. Hún kenndi þeim sem vildu að prjóna, spila ólsen-ólsen, þar sem ekkert var gefið eftir og margt fleira. Hún átti alltaf eitthvað með kaffinu nýbakað og ef ekki þá var því reddað á staðnum með bakstri á pönnsum með sykri eða vöfflum og sultu. Það var alltaf til rabarbarasulta á þeim bæ. Margar minningar okkar systkina tengjast bakstrinum, sem við fengum oftar en ekki veigamikið hlutverk í. Við kleinubaksturinn gerðum við fjallahring úr hveiti, eggin í miðjuna og svo var þessu öllu blandað saman, flatt út með kefli, skorið í ræmur og snúið í kleinur.
Það kom alltaf gleðiglampi í augu mömmu þegar barnabörnin voru rædd. Hún hafði greinilega gaman af því að rifja upp gamla tíma. Ömmubarn hennar og nafna, Heiða Stefáns, fékk það verkefni í skólanum að taka viðtal við ömmu sína. Þar segir mamma m.a. frá brúðkaupi þeirra pabba. Mamma segir svo frá í þessu skemmtilega viðtali:
Við giftum okkur heima hjá séra Bjarna Jónssyni. Við löbbuðum þangað niður eftir og það var ekki mikil veisla. Við fórum þangað heim og hann kyrjaði yfir okkur og konan hans söng og spilaði á píanó. Við vorum bara tvö. Í söngnum rak hann upp skræka tóna, því að eitthvað var að honum í hálsinum og hann talaði mjög djúpt en þegar hann söng fór hann mjög hátt upp. Það var mjög hlægilegt.
Þetta var sama daginn og Peta litla systir afa þíns fermdist, svo við fórum frá prestinum í Dómkirkjuna þar sem Peta var fermd. Svo fórum við upp á Bergstaðastræti því þar bjó Ágústína systir afa þíns. Þar drukkum við kaffi með pabba hans og mömmu. Fórum svo til Óskars bróður því hann var þrítugur þennan sama dag. Það vissi enginn af giftingunni fyrr en við komum. Við hringdum svo í mömmu og pabba og létum þau vita, en það var ekki mikið tilstand. Gugga vinkona mín vissi nú um það að við ætluðum að gifta okkur þennan dag. Margrét og Pétur voru vottarnir, en þau þurftu ekkert að mæta. Svo fæðist Stefán.
Og börnin urðu á endanum fimm. Afkomendur mömmu og pabba eru nú orðnir 57. Auk fimm barna eru fædd 16 barnabörn, 28 barnabarnabörn og átta barnabarnabarnabörn.
Mömmu þótti mjög gaman þegar öll barnabörnin gátu komið á jólum og stórhátíðum. Svo þegar barnabarnabörnin fóru að koma líka þótti henni það ekki leiðinlegt.
Mamma var listamaður með prjónana. Það mátti ganga að því vísu að hvert nýfætt barn eignaðist sitt listaverk, peysu, húfu og vettlinga. Hún reyndi að prjóna eitt sett á hvert barnabarnabarn en þau urðu 28 talsins. Líklega aftraði gigtin því að henni tækist ætlunarverkið að fullu. En þvílík listaverk sem hún framleiddi og allt eftir eigin höfði.
Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund. Þú að verða 98 ára þegar kallið kom og alveg tilbúin að sofna svefninum langa. Við erum þér ævinlega þakklát fyrir allt sem þú kenndir okkur í lífinu eins og skynsemi, þolinmæði, hæglæti, ákveðni, væntumþykju, stundvísi og að bera virðingu fyrir öðru fólki. Þú kenndir okkur einnig öll eldhús- og heimilisstörf og lagðir mikla áherslu á hreinlæti og nýtni matvæla. Það var einhvern veginn þannig þegar þú varst að vinna, að enginn vissi af fyrr en verk voru frá, kakan komin.
Samband ykkar pabba var fallegt. Við fylgdumst með dansæfingum ykkar í stofunni, þar sem gömlu dansarnir voru æfðir af kappi. Það er alveg víst að sporin verða nú stigin á ný á nýjum stað. Það er ekki ólíklegt að pabbi bíði þín þar með fersk vínber.
Elsku mamma, takk fyrir lífið!
Þín elskandi börn,
Stefán Þór, Ágúst Már, Jóna Björg, Þröstur og Sigurður.